Flestir fljúga til Íslands frá Frankfurt

Farþegafjöldinn í flugi milli Íslands og Þýskalands hefur ríflega tvöfaldast síðustu fimm ár. Flestir nýttu sér áætlunarferðirnar frá Frankfurt.

Frá Frankfurt. Mynd: Marius Christensen / Unsplash

Þýskir ferða­menn hafa lengi verið íslenskri ferða­þjón­ustu mikil­vægir og ekki aðeins vegna þess hversu fjöl­mennir þeir eru. Það skiptir ekki síður máli hversu margir þeirra fara vítt og breitt um landið og gefa sér tíma í Íslands­reisuna. Góðar flug­sam­göngur milli land­anna tveggja hafa lengi verið góðar og í fyrra flugu 416.215 farþegar frá þýskum flug­völlum til Íslands. Til saman­burðar nam fjöldinn 177.149 farþegum árið 2014 samkvæmt tölum frá þýskum flug­mála­yf­ir­völdum. Isavia veitir hins vegar ekki svona upplýs­ingar og kærði Túristi þá afstöðu til úrskurð­ar­nefndar upplýs­inga­mála fyrir nærri ári síðan. Niður­staða liggur ekki ennþá fyrir.

Þegar litið er til umferðar eftir flug­völlum kemur í ljós að um fjórir af hverjum tíu farþegum sem fljúga milli Íslands og Þýska­lands stigu um borð í flug­vélina í Frankfurt. Þaðan hafa Icelandair, Luft­hansa og WOW air flogið beint til Íslands allan ársins hring en skipting á milli þessara þriggja flug­fé­laga liggur ekki fyrir. Næst flestir fljúga hingað frá Berlín eða nærri þrír af hverjum tíu eins og sjá má á grafinu hér fyrir neðan. Til Berlínar flugu í fyrra bæði íslensku flug­fé­lögin, WOW til Schö­ne­feld og Icelandair til Tegel. Það fyrr­nefnda var miklu umsvifa­meira enda með fleiri ferðir. Sumaráætlun Icelandair gerir ráð fyrir mun tíðari ferðum til Berlínar næstu mánuði.

Á tíma­bili flugu tvö þýsk flug­félög hingað til lands frá þýsku höfuð­borg­inni en annað þeirra, Airberlin, fór í þrot í hittifyrra og Eurow­ings hefur dregið tölu­vert úr Íslands­flugi eins og áður hefur verið fjallað um. Nýlegt gjald­þrot þýska flug­fé­lagsins Germania hefur líka þónokkur áhrif á flug­sam­göngur milli Þýska­lands og Íslands í sumar því það félag bauð upp á áætl­un­ar­ferðir hingað frá Dresden, Nürn­berg og Bremen og var eitt um flugið frá þeim borgum. Þúsundir Þjóð­verja flugu með Germania til Íslands í fyrra.