Flestir fljúga til Íslands frá Frankfurt

Farþegafjöldinn í flugi milli Íslands og Þýskalands hefur ríflega tvöfaldast síðustu fimm ár. Flestir nýttu sér áætlunarferðirnar frá Frankfurt.

Frá Frankfurt. Mynd: Marius Christensen / Unsplash

Þýskir ferðamenn hafa lengi verið íslenskri ferðaþjónustu mikilvægir og ekki aðeins vegna þess hversu fjölmennir þeir eru. Það skiptir ekki síður máli hversu margir þeirra fara vítt og breitt um landið og gefa sér tíma í Íslandsreisuna. Góðar flugsamgöngur milli landanna tveggja hafa lengi verið góðar og í fyrra flugu 416.215 farþegar frá þýskum flugvöllum til Íslands. Til samanburðar nam fjöldinn 177.149 farþegum árið 2014 samkvæmt tölum frá þýskum flugmálayfirvöldum. Isavia veitir hins vegar ekki svona upplýsingar og kærði Túristi þá afstöðu til úrskurðarnefndar upplýsingamála fyrir nærri ári síðan. Niðurstaða liggur ekki ennþá fyrir.

Þegar litið er til umferðar eftir flugvöllum kemur í ljós að um fjórir af hverjum tíu farþegum sem fljúga milli Íslands og Þýskalands stigu um borð í flugvélina í Frankfurt. Þaðan hafa Icelandair, Lufthansa og WOW air flogið beint til Íslands allan ársins hring en skipting á milli þessara þriggja flugfélaga liggur ekki fyrir. Næst flestir fljúga hingað frá Berlín eða nærri þrír af hverjum tíu eins og sjá má á grafinu hér fyrir neðan. Til Berlínar flugu í fyrra bæði íslensku flugfélögin, WOW til Schönefeld og Icelandair til Tegel. Það fyrrnefnda var miklu umsvifameira enda með fleiri ferðir. Sumaráætlun Icelandair gerir ráð fyrir mun tíðari ferðum til Berlínar næstu mánuði.

Á tímabili flugu tvö þýsk flugfélög hingað til lands frá þýsku höfuðborginni en annað þeirra, Airberlin, fór í þrot í hittifyrra og Eurowings hefur dregið töluvert úr Íslandsflugi eins og áður hefur verið fjallað um. Nýlegt gjaldþrot þýska flugfélagsins Germania hefur líka þónokkur áhrif á flugsamgöngur milli Þýskalands og Íslands í sumar því það félag bauð upp á áætlunarferðir hingað frá Dresden, Nürnberg og Bremen og var eitt um flugið frá þeim borgum. Þúsundir Þjóðverja flugu með Germania til Íslands í fyrra.