Flugrekstrarleyfi með hraði

Það þarf ekki að taka marga mánuði að fá flugrekstrarleyfi hjá Samgöngustofu. Nýtt viðskiptaplan Skúla Mogensen gengur einmitt út á að hið endurreista WOW fái grænt ljós frá íslenskum yfirvöldum hratt og örugglega.

MYND: WOW AIR

Það var rétt liðin vika frá gjaldþroti WOW air þegar Fréttablaðið sagði frá áformum Skúla Mogensen og sjö manna framkvæmdastjórnar lággjaldaflugfélagsins um að endurreisa það nú strax í apríl. Ef það á að ganga upp þá þarf félagið flugrekstrarleyfi fljótt svo hægt sé að sinna sérverkefni fyrir ónefnt evrópskt flugfélag sem hefjast á nú í vor. Umsóknarferlið flugrekstrarleyfa tekur þó oftar en ekki marga mánuði og jafnvel rúmt ár. Hið nýja WOW air gæti þó komist hratt í loftið því samkvæmt svari frá Samgöngustofu, við fyrirspurn Túrista, þá er ekki útilokað að afgreiða nýtt flugrekstrarleyfi á einum til þremur mánuðum „ef undirbúningur er góður og öll gögn liggja fyrir.“

Þetta kann að vera ástæða þess að nokkrir aðilar hafa sýnt flugrekstrarhluta úr þrotabúi WOW áhuga eins og Vísir sagði frá í gær. Þar var haft eftir Þorsteini Einarssyni, annars af skiptastjórum þrotabús WOW air, að nokkrir hafi haft samband og lýst áhuga á flugrekstrarhluta WOW.

Eins og áður hefur komið fram þá byggir endurreisn WOW air á því að Skúli og framkvæmdastjórarnir sjö fái 51 prósent hlut í nýja WOW á meðan fjárfestar sem leggja félaginu til tæpa fimm milljarða króna frá 49 prósent. Félagið mun hafa tryggt sér fimm flugvélar og verða þær fyrst nýttar í fyrrnefnt leiguverkefni fyrir evrópskt flugfélag nú í vor og í sumarbyrjun.

Í lok júní er svo ætlunin að hið nýja WOW air taka upp þráðinn á Keflavíkurflugvelli og hefji áætlunarflug til nokkurra evrópskra áfangastaða og þriggja stórborga á austurströnd Bandaríkjanna. Túristi hefur óskað efir upplýsingum um hversu fljótt er hægt að fá leyfi fyrir flugi til Bandaríkjanna frá þarlendum yfirvöldum, svokallað FAR 129 leyfi, en ekki hefur fengist svar.

Samkvæmt kynningu sem send hefur verið til fjárfesta þá er gert ráð fyrir að nýja WOW flytji 570 þúsund farþega í ár en um eina og hálfa milljón farþega á næsta ári. Árið 2021 á farþegafjöldinn að vera kominn upp í tvær milljónir.