Gera ráð fyrir auknum taprekstri hjá Icelandair

Á föstudag birtir Icelandair afkomu sína á fyrsta árafjórðungi og sérfræðingar Arion banka reikna með um 7 milljarða króna tapi.

Mynd: Icelandair

Fyrstu mánuðir ársins eru vanalega þungir í flugrekstri og á fyrsta ársfjórðungi í fyrra nam tapið hjá Icelandair um 35 milljónum dollara. Það jafngilti um 3,5 milljörðum króna miðað við þáverandi gengi og gáfu stjórnendur flugfélagsins það út í byrjun mars sl. að útlit væri fyrir ennþá verri afkomu á fyrsta fjórðungi þessa árs.

Hver niðurstaðan verður kemur í ljós í lok vikunnar þegar Icelandair birtir afkomutölur fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins en í nýju mati sérfræðinga Arion banka er gert ráð fyrir að tapið á tímabilinu nemi tæpum 7 milljörðum króna eða um 52 milljónum dollara. Gangi það eftir þá mun tap Icelandair á fyrsta ársfjórðungi tvöfaldast frá því fyrra í íslenskum krónum talið en aukast um nærri sextíu af hundraði í dollurum.

Sérfræðingar Arion banka áætla jafnframt að rekstur Icelandair verði í mínus  þegar árið verður gert upp en að tapið verði nokkru minna en á því síðasta. Samkvæmt mati bankans þá skrifast skárri afkoma flugfélagsins meðal annars á mögulega hækkun meðalfargjalda og bætta sætanýtingu í kjölfar falls WOW air. Það er hins vegar tekið fram í mati Arion að óvissan í fluggeiranum sé mikil og meðal annars í kringum hinar kyrrsettu Boeing MAX þotur. Sumaráætlun Icelandair byggði til að mynda á því að félagið hefði níu þess háttar þotur í rekstri.