Hætta í skugga skuldasöfnunnar WOW

Björn Óli Hauksson og Ingimundur Sigurpálsson hafa leitt Isavia síðustu ár en nú hafa þeir ákveðið að láta af störfum. Ekki liggur fyrir hvort ákvarðanir þeirra hafa eitthvað með mikla skuldasöfnun WOW air á Keflavíkurflugvelli að gera.

Björn Óli Hauksson, fráfarandi forstjóri Isavia. Mynd: Isavia

Á aðalfundi Isavia, stuttu fyrir gjaldþrot WOW air, tilkynnti Ingimundur Sigurpálsson að hann hefði ákveðið að draga sig í hlé. Og í gærkvöld barst fréttatilkynning frá Isavia þar sem fram kemur að eftir áratug sem forstjóri ætli Björn Óli Hauksson að láta gott heita. Í tilkynningunni er haft eftir Birni Óla að nú sé að hefjast enn einn kaflinn í sögu Isavia og því telji hann að nú sé góður tími fyrir nýtt fólk taki við keflinu. Það kemur hins vegar ekki fram í tilkynningunni hvaða tímamót í rekstri Isavia það eru sem kalla á þessa ákvörðun Björns Óla.

Það er hins vegar opinbert að WOW air skildi eftir sig verulega skuld á Keflavíkurflugvelli og samkvæmt frétt Morgunblaðsins í morgun þá nam hún um tveimur milljörðum króna í lok febrúar síðastliðinn. Í fréttinni segir einnig að stjórnendur Isavia hafi í september í fyrra gert samkomulag við WOW air um vanskil flugfélagsins sem námu þá um milljarði króna. Samið var um þrettán afborganir sem greiða átti síðustu tvo mánuði síðasta árs og fram í nóvember í ár. WOW stóð í skilum fram í febrúar. Ekki kemur fram í fréttinni hvernig á því stóð að skuld WOW tvöfaldaðist frá því í haust. Hins vegar má gera ráð fyrir því að skýringin sé sú að flugfélagið hafi ekki gert upp farþega- og lendingagjöld í vetur heldur aðeins greitt inn á gömlu skuldina.

Hluti af samkomulagi Isavia og WOW air var að ein af flugvélum félagsins væri á Keflavíkurflugvelli sem trygging fyrir skuldinni. Þegar samkomulagið var gert í haust þá átti WOW air fjórar Airbus flugvélar en hinar þoturnar í flotanum voru leiguvélar. Í árslok seldi WOW hins vegar þoturnar fjórar til Air Canada og þar með var Isavia bara með tryggingu í þotum sem flugfélagið átti ekki. Leigusalar voru þó ekki meðvitaðir um þetta fyrirkomulag samkvæmt frétt Morgunblaðsins en nú hafa stjórnendur Isavia hafa gert kröfu um að eigendur flugvélarinnar TF-GPA, leigufyrirtækið Air Lease Corporation, standi skil á skuld Isavia gegn því kyrrsetningu þotunnar verði aflétt.