Hætta við Tyrklandsferðir frá Íslandi

Ekkert verður af áformum um að bjóða Íslendingum upp á sólarlandaferðir til Bodrum og Marmaris í sumar. Eftirspurnin reyndist ekki nægjanleg.

Frá tyrkneskri sólarströnd. Mynd: Nihat Sinan Erul

Stærstu ferðaskrifstofur landsins hafa ekki boðið upp á sólarferðir til Tyrklands síðustu fimm sumur en í ár stóð til að fljúga viðskiptavinum Heimsferða, Úrval-Útsýn og Vita vikulega til Bodrum og Marmaris á vesturströnd Tyrklands. Af því verður hins vegar ekki þar sem eftirspurnin var ekki nægjanleg.

„Það er missir af Tyrklandi því það er yndislegur staður og hótelin engu lík. En eftirspurnin var annarstaðar,“ segir Jakob Ómarsson, markaðsstjóri Vita. Hann bæti því við að búið sé að hafa samband við farþega og láta þau vita af ákvörðuninni og þeim standi til boða aðstoð við að finna aðrar ferðir eða fá endurgreiðslu að fullu.

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands, sem Úrval-Útsýn heyrir undir, segir að sömuleiðis að ásóknin í ferðirnar til Tyrklands hafi verið minni en gert var ráð fyrir. „Við höfum í staðinn ákveðið að fjölga ferðum til Tenerife og erum að skoða aukið flug til annarra sólarstaða.“

Líkt og Túristi hefur áður fjallað um þá hefur ferðaþjónusta í Tyrklandi verið að ná fyrra flugi eftir nokkur mögur ár. Ótryggt stjórnmálaástand í landinu og stríðsátök í nágrannalandinu Sýrlandi voru megin ástæður þess að ferðamenn frá Evrópu drógu verulega úr ferðum sínum þangað. Síðastliðið sumar fjölgaði þó ferðafólki á tyrkneskum sólarströndum frá hinum Norðurlöndunum og sérstaklega frá Þýskalandi.