Halda úti Parísarflugi fram yfir áramót

Fransk-hollenska lággjaldaflugfélagið mun bjóða upp á áætlunarflug milli Orly og Keflavíkurflugvallar fram í janúar.

Til Parísar í vetur fljúga bæði Icelandair og Transavia. Mynd: John Towner - Unsplash

Það eru fá erlend flugfélög sem hafa haldið úti Íslandsflugi eins lengi og Transavia. Þetta dótturfélag KLM og AirFrance hóf að fljúga hingað frá Orly flugvelli við París fyrir meira en áratug síðan en ferðirnar hafa oftast takmarkast við háannatímann í ferðaþjónustunni. Núna er hins vegar hægt að bóka flug héðan með félaginu til frönsku höfuðborgarinnar fram til 4. janúar. Félagið ætlar líka að spreyta sig á reglulegum ferðum milli Íslands og Amsterdam frá byrjun júlí eins og áður hefur komið fram.

Ódýrustu farmiðarnir héðan með Transavia til Parísar í haust og vetur kosta í dag 49 evrur eða um 6.700 krónur en þotur félagsins fljúga frá Keflavíkurflugvelli á þriðjudögum og laugardögum. Til Amsterdam er flogið á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum.

Til viðbótar við flugferðirnar frá Keflavíkurflugvelli þá nýtir hollensk ferðaskrifstofa flugvélar Transavia til að fljúga fólki milli Rotterdam og Akureyri í sumar. Flogið er á mánudögum og kostar ódýrustu farmiðarnir 250 evrur í dag eða um 34 þúsund krónur. Farþegar Transavia borga aukalega fyrir farangur og val á sætum.