Harður slagur í SAS

Forstjóri skandinavíska flugfélagsins segir kröfur flugmanna félagsins geta fellt fyrirtækið. Inn í kjaradeiluna blandast ólík sýn viðsemjenda á framtíðarskipulag þess.

Richard Gustafsson, forstjóri SAS. Mynd: SAS

Fimmta daginn í röð liggur nærri allt flug SAS niðri vegna verkfalls flugmanna. Ástandið hefur áhrif á ferðaplön tugþúsunda farþega á degi hverjum og hefur í raun lamað flugsamgöngur í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Þrátt fyrir það er kjaradeilan í hnút og viðsemjendur talast varla við. Rickard Gustafson, forstjóri SAS, var myrkur í máli í fjölmiðlum í gær.

„Ég vonast til þess að flugmennirnir axli ábyrgð og átti sig á því að núna erum við að saga trjágreinina sem við sitjum á. Og við sögum mjög hratt,“ sagði Gustafsson í viðtali við Dagens Næringsliv. Hann ítrekaði að ekki yrði orðið við kröfu flugmannanna um þrettán prósent launahækkun. Samkvæmt útreikningum forstjórans þá myndi sú kjarabót kosta SAS um 500 milljónir norskra króna á ári en það jafngildir um sjö milljörðum íslenskra króna. Flugmönnunum stendur til boða rúmlega tveggja prósent hækkun og bendir forstjórinn á að staðan í fluggeiranum í Skandinavíu gefi ekki tilefni til bjartsýni. Þannig hafi Norwegian lengi staðið illa og nýverið sagði sænska innanlandsflugfélagið BRA upp þriðjungi starfsmanna.

Flugmennirnir sjálfir segja launin hjá SAS lakari en hjá öðrum evrópskum flugfélögum og þá staðreynd megi meðal annars skrifa á samkomulagið sem tókst milli SAS og starfsmanna í lok árs 2012 þegar fyrirtækið var á barmi gjaldþrots. SAS skilaði hins vegar methagnaði í fyrra. Meðaltekjur flugmanna SAS nema í dag um einni milljón norskra króna á ári sem samsvarar um 14 milljónum íslenskra. Þar með eru flugmennirnir sjötta hæstlaunaða starfstéttin í Noregi samkvæmt tölum hagstofunnar þar í landi.

Kjaradeilan snýst þó ekki aðeins um launakjör heldur vilja flugmennirnir líka fá vaktaplön með lengri fyrirvara, draga úr helgarvinnu og einnig takmarka möguleika SAS á því að ráða áhafnir erlendis frá. Síðastnefnda atriðið vegur þungt í huga flugmannanna og ekki að ástæðulausu því í fyrra stofnaði SAS írskt dótturfélag, færði þangað nokkrar flugvélar og réði erlendar áhafnir til að sjá um hluta af flugferðunum frá Spáni og Bretlandi til Skandinavíu. Núverandi samkomulag SAS við flugmenn gerir ráð fyrir að flugfélagið megi í mesta lagi nýta erlendar áhafnir eða leiguflugfélög í 11 til 13 prósent af starfseminni.

Þennan kvóta vilja stjórnendur SAS útvíkka í skiptum fyrir æviráðningu allra þeirra fimmtán hundruð flugmanna sem starfa hjá félaginu í dag. Það vegur hins vegar þyngra hjá flugmönnunum að tryggja að SAS nýti áfram skandinavískar áhafnir því þeir óttast að félagið fylgi fordæmi Norwegian sem hefur opnað starfstöðvar víða í Evrópu og líka vestanhafs og í Taílandi.

„Flugmennirnir vilja halda í gamla skipulagið innan SAS en það virkar ekki í flugrekstri í dag, stjórnendurnir þurfa að hugsa hlutina upp á nýtt og spara á fleiri sviðum. Ég held að flugmennirnir skilji ekki reikningsdæmið og samkeppnina sem SAS er í,“ segir Steen Frode, prófessor við Norska verslunarháskólann, í viðtali við Dagens Næringsliv.

Sem fyrr segir þá er gangurinn í kjaraviðræðunum mjög hægur og hefur SAS aflýst 504 flugferðum á morgun og hefur það áhrif á nærri 50 þúsund farþega. Þar á meðal eru þeir sem eiga bókað flug með félaginu til og frá Keflavíkurflugvelli en SAS flýgur allan ársins hring hingað frá Ósló og Kaupmannahöfn og í sumar bætast við áætlunarferðir frá Stokkhólmi yfir hásumarið.