Hótelverð lækkar áfram í höfuðborginni

Reykjavík og Dublin voru einu borgirnar þar sem hótelgistingin lækkaði í verði í apríl.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com
Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Hótelgestir í Reykjavík nú í apríl hafa að jafnaði borgað um 15.400 krónur fyrir nótt í hefðbundnu herbergi. Þetta er sex prósent lægra verð í evrum talið en í apríl í fyrra samkvæmt athugun hótelleitarvélarinnar Trivago. Samantektin nær til 50 borga en þar sem páskafríið teygði sig yfir mánamótin mars/apríl í fyrra kann það að hafa áhrif á verðþróunina í apríl. Eins hefur krónan veikst um tíund síðastliðið ár gagnvart evru sem þýðir að íslenskir hóteleigendur fengu í raun fleiri krónur fyrir herbergin núna en í fyrra.

Í samanburði Trivago er líka litið til verðþróunar milli mánaða og í ljós kemur að það var aðeins í Dublin og Reykjavík sem verðið lækkaði frá því í mars. Lækkunin í íslensku höfuðborginni nam 12 prósentum.

Hafa ber í huga að tölur Trivago ná aðeins til þeirra hótelbókanna sem fóru í gegnum vef fyrirtæksins og samantektin því aðeins vísbending um verðþróunina.