„Hrein­legra að stöðva rekst­ur­inn“

Ferðaskrifstofan Gaman ferðir sem WOW air átti 49 prósent hlut í hefur skilað inn ferðaskrifstofuleyfi sínu og er hætt rekstri.

gaman ferdir mynd
Eitt af hótelum Gaman ferða á Tenerife. Mynd: Gaman ferðir

Ferðaskrifstofan Gaman Ferðir hefur skilað inn ferðaskrifstofuleyfi sínu og hætt starfsemi. Í tilkynningu kemur fram að fall WOW air hafi orðið félaginu mun þyngri baggi en gert hafði verið ráð fyrir. „Þótt félagið hafi staðið vel að vígi varð orðið ljóst að lausafjárstaða félagsins næstu sex mánuðina yrði ekki nægjanlega sterk til þess að réttlæta áframhaldandi starfsemi og mun hreinlegra að stöðva reksturinn áður en viðskiptavinum og starfsfólki yrði gerður fjárhagslegur skaði,“ segir í tilkynningu.

Gaman Ferðir báru lögbundnar tryggingar sem munu grípa inn í og endurgreiða þeim sem komast ekki í fyrirhugaða ferð. Farþegar þurfa að gera kröfu í tryggingaféð rafrænt í gegnum þjónustugátt Ferðamálastofu til þess að fá endurgreiðslu en öllum spurningum varðandi þetta og þær ferðir sem hafa verið greiddar og verða farnar er hægt að fá svarað hjá Ferðamálastofu.