Indigo Partners skoða kaup á tveimur flugfélögum

Forsvarsmenn fjárfestingafélagsins Indigo Partners eru með mörg járn í eldinum.

Það eru erfiðir tímar í flugrekstri og mörg félög að leita fjárfesta. Mynd: Brent Cox / Unsplash

Það eru umrótstímar í fluggeiranum og WOW air og Primera air, flugfélög Skúla Mogensen og Andra Más Ingólfssonar, voru ekki þau einu sem lifðu ekki af veturinn. Nú síðast bárust fregnir af rekstrarstöðvun Jet Airways, næst stærsta flugfélags Indlands, og nú munu fjórir fjárfestar vera að skoða kaup á eignum félagsins. Þar á meðal er bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners sem lengi var orðað við stóran hlut í WOW air.

Indverska flugfélagið er þó ekki það eina sem starfsmenn Indigo Partners skoða um þessar mundir því þeir munu einnig sjá tækifæri í taka yfir dótturfélag kólumbíska ríkisflugfélagsins Avianca í Brasilíu. Reksturinn í Brasilíu er í járnum og í síðustu viku féllu stjórnendur Azul Airlines frá áformum sínum um að taka keppinautinn yfir.

Í kjölfarið vaknaði áhugi Indigo Partners og samkvæmt frétt vefsíðunnar Airline Geeks þá sjá stjórnendur bandaríska fjárfestingafélagsins tækifæri í að auka umsvif lággjaldaflugfélagsins Jet Smart í Chile sem er alfarið í eigu Indigo Partners. Í dag takmarkast umsvif Jet Smart við innanlandsflug í Chile auk áætlunarferða til Argentínu og Perú en á því gæti fljótlega orðið breyting ef kaupin á brasilíska flugfélaginu ganga eftir.

Tilboðsfrestur í flugrekstur Avianca í Brasilíu rennur út þann 7. maí næstkomandi. Það er því ljóst að sérfræðingar Indigo Partners geta ekki gefið sér jafn langan tíma í að velta þeirri fjárfestingu fyrir sér og þeir tóku í að skoða kaupa á 49 prósent hlut í WOW air.