Með langa reynslu af Íslandsflugi

Fransk-hollenska flugfélagið Transavia bætir við ferðum hingað til lands í sumar frá Amsterdam.

amsterdam Jace Grandinetti
Frá Amsterdam. Í sumar mun Transavia veita Icelandair samkeppni í flugi þangað. Félögin tvö verða líka ein um Parísar flugið. Mynd: Jace Grandinetti / Unsplash

Lággjaldaflugfélagið Transavia hefur um árabil flogið hingað frá Orly flugvelli við París. Í sumar bætist við áætlunarflug milli Amsterdam og Keflavíkurflugvallar auk ferða milli Rotterdam og Akureyrar fyrir hollensku ferðaskrifstofuna Voigt Travel. „Með þessu er Transavia að bregðast við aukinni eftirspurn eftir flugi til og frá Íslandi í kjölfar gjaldþrots WOW air. Að sama skapi gefur þetta Transavia tækifæri til þess að útvíkka leiðakerfi sitt til norðurs,“ segir í tilkynningu frá Isavia.

Sem fyrr segir hefur Ísland verið hluti að leiðakerfi Transavia síðustu ár en þó frá heimhöfn þess í frönsku höfuðborginni en ekki þeirri hollensku. Þaðan flaug flugfélagið þó til Íslands undir lok síðustu aldar eins og sjá má á auglýsingunni hér fyrir neðan.

Í tilkynningu Isavia í dag segir að þegar ljóst var að WOW air myndi hætta starfsemi hafi verið haft samband við Transavia sem áður hefur sýnt Íslandi áhuga sem áfangastað. „Transavia brást skjótt við og lýsti fljótt yfir áhuga á því að hefja flug milli Keflavíkur og Amsterdam. Þetta eru virkilega ánægjuleg niðurstaða en Isavia mun áfram leita til flugfélaga um að hefja flug til landsins,“ segir Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Isavia.

Sumaráætlun WOW gerði ráð fyrir daglegum ferðum til Amsterdam en síðastliðið sumar voru ferðir félagsins þangað tvær á dag eða jafn margar og hjá Icelandair.