Engar fréttir af sölu hótela Icelandair

Það stóð til að ljúka sölu á hótelum Icelandair á fyrsta fjórðungi ársins. Ekkert hefur hins vegar verið gefið út um stöðuna.

Frá Reykjavík Konsúlat hótelinu sem er í eigu Icelandair hótelanna. Mynd: Icelandair hoteling

Fyrir nærri ári síðan tilkynntu stjórnendur Icelandair Group að hótel samsteypunnar yrðu seld. Um er að ræða næst stærsta hótelfyrirtæki landsins og í ljós kom að fjölmargir fjárfestar voru áhugasamir. Á annan tug tilboða barst og stefnt var að því að niðurstaða í sölunni lægi fyrir undir lok fyrsta fjórðungs ársins. Nú er annar ársfjórðungur hafinn og engar upplýsingar er að fá hjá Icelandair. „Það er ekkert nýtt að frétta af hótelsölunni sem við getum gefið upp að svo stöddu,“ segir í svari frá Icelandair Group. Ekki fékkst svar við þeirri spurningu hvort gjaldþrot WOW hafi tafið söluferlið nú á lokametrunum.

Það er ekki opinbert hvaða fjárfestar hafa sýnt áhuga á að kaupa hótelin en í lok febrúar sagði Fréttablaðið frá því að eigendur Keahótelanna væru meðal bjóðenda. Fyrir helmingshlut í þeirri hótelkeðju fer bandaríska eignastýringarfyrirtækið Pt Capital Advisors en forstjóri þess er Hugh Short. Hann lýsti því yfir eftir gjaldþrot WOW, í færslu á Linkedin sem Fréttablaðið sagði frá, að hann spyrði sig afhverju íslensk stjórnvöld aðstoðuðu ekki við að halda flugfélaginu í rekstri tímabundið. „Það hefði verið hægt að komast hjá þessu öllu saman.“ Þetta stöðumat Short segir kannski sitt um áhuga hans og fleiri fjárfesta á að kaupa næst stærstu hótelkeðju landsins nú þegar næst stærsta flugfélagið er farið í þrot.

Það verður þó ekki horft fram hjá því að staða WOW hefur verið ótrygg nærri allan þann tíma sem söluferli hótela Icelandair hefur staðið yfir. Þátt fyrir það er áhuginn mikill sem fyrr segir. Aðspurður um þessa óvissu varðandi WOW þá sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í svari til Túrista í haust, að ástandið hafi ekki seinkað söluferlinu né lækkað væntingar um söluverð hótelanna. „Hins vegar hefur þessi atburðarás ekki farið framhjá mönnum. Það er alltaf ákveðin óvissa í spám um fjölda ferðamanna til Íslands. Ein breyta í þeirri jöfnu eru flugsamgöngur til landsins og fregnir af fjárhagslegum erfiðleikum flugfélags auka á þá óvissu,” sagði Bogi í september síðastliðnum.

Nú er ríkir ekki lengur óvissa um framtíð WOW en spurning hvort endalok félagsins hafi líka gert út um áform Icelandair um sölu á hótelum fyrirtækisins. Við þeirri spurningu fæst sennilega skýrt svar fljótlega frá forsvarsfólki Icelandair.