Ráðin verkefnastjóri stafrænnar ferðaþjónustu

Inga Rós Antoníusdóttir hefur verið ráðin í stöðu verkefnastjóra á sviði stafrænnar ferðaþjónustu hjá Ferðamálastofu.

Ferðamenn við Námaskarð. Mynd: Iceland.is

Eitt af markmiðum Ferðamálastofu er að Ísland verði leiðandi á sviði stafrænnar þróunnar í ferðaþjónustu samkvæmt því segir frétt á vef stofnunarinnar þar sem tilkynnt er um ráðningu Ingu Rós Antoníusdóttur. Hún er menntuð í alþjóðaviðskiptum með áherslu á þvermenningarleg samskipti frá Copenhagen Business School og er auk þess með kennaragráðu frá HÍ. „Inga Rós hefur á liðnum árum aflað sér víðtækrar reynslu og þekkingar á hinum stafræna heimi, með kennslu, ráðgjöf og sem markaðsstjóri með áherslu á stafrænar lausnir,“ segir í fréttinni.

Inga Rós sé búsett í Kaupmannahöfn og muni sinna nýja starfinu þaðan. „Starf án staðsetningar er nýjung nú regla hjá Ferðamálastofu og helst í hendur við þá þróun sem á sér stað í atvinnumálum í stafrænum heimi.“