Reikna ekki með MAX þotum í vor

Boeing flugvélaframleiðandinn þarf nokkrar vikur í viðbót til að binda lokahnútinn á breytingar á búnaði MAX þotanna. Stjórnendur Southwest Airlines í Bandaríkjunum gera ekki ráð fyrir að nota þoturnar næstu tvo mánuði.

Mynd: Boeing

Allt frá því að Boeing MAX þoturnar voru kyrrsettar fyrir þremur vikum síðan þá hafa stjórnendur flugvélaframleiðandans reglulega gefið í skyn að stutt væri í uppfærslur á sjálfvirkum búnaði sem talinn er hafa verið valdur að tveimur mannskæðum flugslysum. Nú herma hins vegar fréttir að ennþá séu nokkrar vikur í að hugbúnaðurinn verði sendur til bandarískra flugmálayfirvalda til prófunar. Samkvæmt USA Today má gera ráð fyrir að búnaðurinn eigi eftir að fara í gegnum mjög strangt eftirlit áður en hann verður samþykktur vestanhafs.

Það stefnir því í nokkra bið í viðbót eftir því að MAX þoturnar fara á loft á ný en sumaráætlun Icelandair byggir á því að félagið hafi níu slíkar til umráða. Bandaríska flugfélagið Southwest Airlines er með þrjátíu og fjórar þess háttar þotur og flugmönnum félagsins hefur verið tjáð að flugáætlun næstu tveggja mánaða geri ekki ráð fyrir MAX þotum samkvæmt því sem fram kemur í vefmiðlinum Business Journal.

Áður hafa forsvarsmenn Air Canada tekið þá ákvörðun að MAX þotur félagsins verði í fyrsta lagi teknar inn að nýju þann 1.júlí. Síðastliðið sumar notaði Air Canada einmitt MAX þotur í Íslandsflug sitt frá Montreal og Toronto. Norwegian var einnig með þess háttar þotur í flugi sínu milli Stokkhólms og Íslands í vetur.

Í tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér í gær segir að félagið hafi möguleika á að auka framboð yfir háannatíma þegar kyrrsetningu Boeing MAX þota félagsins verður aflétt.