Segir skulda­söfnun WOW fordæma­lausa

Stjórnarformaður flugvélaleigunnar sem á kyrrsettu Airbus þotuna á Keflavíkurflugvelli er harðorður í garð Isavia og hótar að fara í skaðabótamál við fyrirtækið og íslenska ríkið. Forsætisráðherra hefur sagt Isavia með tryggingu fyrir skuldum WOW en fjármálaráðherra hefur ekkert tjáð sig um málið nema með stuttri Twitter færslu síðastliðið haust.

Ein af þotum WOW við Leifsstöð. Mynd: Isavia

Sjö af þeim níu þotum sem voru í flota WOW air undir það síðasta voru í eigu flug­véla­leig­unnar Air Lease Corporation. Ein af flug­vél­unum stendur ennþá á Kefla­vík­ur­flug­velli þar sem Isavia kyrr­setti hana í kjölfar gjald­þrots WOW air. Fer Isavia fram á að leigu­salinn geri upp ríflega tveggja millj­arða króna skuld WOW air við Kefla­vík­ur­flug­völl.

Þessi krafa virðist koma Steve Udvar-Házy, stofn­anda og stjórn­ar­for­manns Air Lease Corporation, spánskt fyrir sjónir þrátt fyrir að fyrir­tækið sé ein umsvifa­mesta flug­véla­leiga heims með um þrjú hundruð þotur í nærri sjötíu löndum. Í harð­orðri yfir­lýs­ingu sem hann sendi frá sér í gær vegna málsins er fullyrt að leitað verði allra leiða til að fá hnekkt ákvörð­unum Isavia og endur­heimta flug­vélina.

„Fram­ganga Isavia og krafa um að óskylt fyrir­tæki gangist í ábyrgðir fyrir skuldum sem til eru komnar án vitundar þess og Isavia ber sjálft ábyrgð á er í senn ófyr­ir­leitin og óskilj­anleg,” segir Steve Udvar-Házy. Hann segir það líka alvar­legt að Isavia hafi gert upp á milli flugrek­enda á Kefla­vík­ur­flug­velli með því að leyfa WOW air að safna upp skuld á laun á meðan önnur flug­félög þurftu að standa skil á sínu. Að lokum segir stjórn­ar­formað­urinn að þetta mál hafi valdið Íslandi og íslenskum stjórn­völdum álits­hnekki og að fyrir­tæki í flug­iðnaði fylgist af áhuga með fram­vind­unni.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem stjórn­endur Isavia hafa gripið til kyrr­setn­inga en í þeim tilvikum voru forsend­urnar aðrar og upphæð­irnar mun lægri. Íslenskir ráða­menn hafa þó líklega verið upplýstir um veð Isavia í leigu­vélum WOW air því þremur dögum fyrir gjald­þrot flug­fé­lagsins sagði Katrín Jakobs­dóttir, forsæt­is­ráð­herra, í viðtali við Rúv, að Isavia hefði ákveðnar trygg­ingar fyrir skuldum WOW air. Hún fór þó ekki nánar út í hvaða trygg­ingar það væru.

Í fyrr­nefndri yfir­lýs­ingu Air Lease Corporation kemur fram að fyrir­tækið ætli að krefja Isavia ohf. og íslenska ríkið um bætur vegna tjóns sem félagið hefur orðið fyrir vegna öftr­unar Isavia á brottför farþega­þotu félagsins. Kyrr­setn­ingin hefur nú varað í nærri fjórar vikur en gera má ráð fyrir að leigu­verð nýlegrar Airbus A321 þotu sé á bilinu 35 til 50 millj­ónir króna á mánuði. Sú upphæð er hins vegar aðeins lítið brot af heild­ar­skuld WOW air við Isavia og þar með við hið opin­bera.

Það er Bjarni Bene­diktsson, fjár­mála­ráð­herra, sem fer með hlut ríkisins í Isavia en hann hefur ekki tjáð sig opin­ber­lega mögu­legt millj­arða tjón Isavia. Í færslu á Twitter í sept­ember síðast­liðnum rifjaði hann þó upp leiðara Morg­un­blaðsins frá haustinu 1980 þar sem til umræðu var möguleg ríkis­að­stoð við Icelandair. Tilefni þess­arar færslu Bjarna var frétt Morg­un­blaðsins um vangoldin lend­inga- og farþega­gjöld WOW air á Kefla­vík­ur­flug­velli.

Stjórn Isavia er skipuð póli­tískt og það er Sjálf­stæð­is­flokk­urinn sem skipar stjórn­ar­for­manninn. Á aðal­fundi fyrir­tæk­isins í mars síðast­liðnum hætti Ingi­mundur Sigurpálsson sem stjórn­ar­formaður og við tók Orri Hauksson, forstjóri Símans. Björn Óli Hauksson, sem verið hefur forstjóri Isavia sl. áratug, sagði svo starfi sínu lausu í kjöl­farið en nýr stjórn­formaður neitar því að starfs­lokin skrifist á fall WOW air. Líkt og Túristi hefur áður bent á þá er Matthías Imsland, vara­formaður stjórnar Isavia, einn af stofn­endum WOW air. Hann hefur sagt að hann telji sig ekki þurfa að víkja af stjórn­ar­fundum þegar málefni WOW eru til umræðu.