Segir starfslok ekki skrifast á fall WOW

Nýkjörinn stjórnarformaður Isavia segir leit að nýjum forstjóra Isavia hefjast eftir páska.

Mynd: Isavia

„Það er búið að ganga á ýmsu í umhverfi Isavia eins og allir vita, mikil uppbygging en líka áskoranir, bæði í nýliðinni fortíð og á næstu misserum,“ segir Orri Hauksson, stjórnarformaður Isavia, um ástæður þess að Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, lætur nú að störfum. Orri bendir á að Björni Óli hafi verið búinn sinna stöðunni lengi og hafi talið þetta vera góðan tímapunkt til að hleypa nýju fólki að.

„Björn vildi því láta af störfum núna til að ný manneskja kæmist hratt inn til framtíðar og varð samkomulag um að svo yrði,“ segir Orri jafnframt í svari til Túrista og fullyrðir að uppsögnin eigi ekki tilurð sína í falli WOW eða viðskiptum Isavia við félagið. Morgunblaðið greindi frá því í dag að skuld WOW við Isavia væri nærri tveir milljarðar og hefði eigandi Airbus þotunnar sem Isavia kyrrsetti á Keflavíkurflugvelli, daginn sem flugfélagið varð gjaldþrota, verið krafinn um greiðslu upphæðarinnar.

Ráðningaferli nýs forstjóra hefst eftir páska að sögn Orra en hann tók sjálfur nýverið við sem stjórnarformaður Isavia eftir að Ingimundur Sigurpálsson lét af embættinu á aðalfundi fyrirtækisins þann 21. mars síðastliðinn. Ingimundur hafði þá verið stjórnarformaður í fimm ár.