Segja sölu á hótelum á lokastigi

Icelandair Group mun halda eftir fimmtungi í hótelrekstri samsteypunnar.

Canopy í miðborg Reykjavíkur tilheyrir Icelandair hótelunum. Mynd: Icelandair hotels

Samningaviðræður í tengslum við söluferli á Icelandair Hotels eru komnar vel á veg. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að ákveðið hafi verið að ganga til lokasamningaviðræðna um sölu á hótelunum og tengdum fasteignum. Gert er ráð fyrir því að Icelandair Group muni eiga 20 prósent hlut í hinum seldu eignum. „Nánar verð gert grein fyrir væntum kaupanda og fyrirhuguðum viðskiptum ef aðilar ná saman um kaupsamning. Aðilar stefna að því að viðskiptin eigi sér stað við lok annars ársfjórðungs 2019,“ segir jafnframt í tilkynningu sem send var kauphöll seinnipartinn í dag.

Fyrr í dag greindi Túristi frá því að upphaflega hefði staðið til að ganga frá sölu hótelanna á fyrsta fjórðungi ársins en ennþá fengjust engar upplýsingar frá fyrirtækinu um gang mála. Fyrrnefnd tilkynning frá Icelandair Group bætti úr þeirri þörf.