Skúli kannski á flug á ný

Stofnandi og forstjóri WOW air er hefur ekki sungið sitt síðasta í fluggeiranum og vinnur nú að stofnun nýs flugfélags ásamt lykilstarfsmönnum WOW.

Mynd: Sigurjón Ragnar

Á meðan stjórnvöld, ferðaþjónustan, Isavia, Icelandair og neytendur hafa verið að vega og meta tilveruna án WOW air þá er stofnandi þess og forstjóri að leggja drög að stofnun nýs flugfélags. Skúli Mogensen leitar nú fjárfestis sem er til í að leggja um 40 milljónir dollara, jafnvirði 4,8 milljarða króna, í nýtt flugfélag sem leitt yrði af Skúla sjálfum og hluta af stjórnendateymi WOW. Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að félagið ætli að reka harða lággjaldastefnu í líkingu við þá sem WOW air hafi fylgt á fyrstu árum þess. Flugflotinn yrði samansettur af fjórum Airbus A321 þotum og einni A320 en þess háttar þotur nýtti WOW air í upphafi og jafnframt undir lokin þegar breiðþotum félagsins hafði verið skilað.

Ætlunin er að því að fara í loftið með hið nýja flugfélag strax nú í sumar. „Fyrstu tólf vikurnar stefnir nýja félagið að því að sinna leiguverkefnum fyrir stórt evrópskt flugfélag en í lok næsta júnímánaðar sé gert ráð fyrir að vélarnar fljúgi frá Keflavíkurflugvelli til þrettán áfangastaða víðs vegar í Evrópu og Norður-Ameríku, nánar tiltekið til Lundúna, Parísar, Amsterdam, Berlínar, Kaupmannahafnar, Dublinar, Tenerife, Alicante, Frankfurt og Barcelona í Evrópu og New York, Baltimore og Boston í Bandaríkjunum,“ segir í frétt Fréttablaðsins.

Sem fyrr segir er nú leitað að fjármagni og sá sem leggur því til nærri fimm milljarða fær 49 prósent hlut á meðan eigendurnir halda meirihlutanum. Ekki kemur fram í frétt Fréttablaðsins hvort Skúli hefur hafið viðræður við Indigo Partners.