Þangað fara Íslendingar um páskana

Akureyri lokkar marga Íslendinga til sína yfir páskahelgina og fjöldi fólks ætlar að verja næstu dögum á erlendri grundu.

Frá Akureyri. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands
Það er löng hefð fyrir því að Íslendingar séu á faraldsfæti um páska og það er að verða árviss viðburður að bílastæðin við Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyllist á skírdag. Það er því óhætt að fullyrða að ófáir ætla að nýta komandi frídaga í ferðalög út í heim og samkvæmt úttekt sem hótelbókunarfyrirtækið Booking.com vann fyrir Túrista þá hafa flestir Íslendingar bókað sér gistingu í London um páskana. Þar á eftir kemur Akureyri og síðan höfuðborgir Þýskalands, Danmerkur og Frakklands.
„Norðurland hefur í gegnum tíðina verið vinsælasti vetraráfangastaður Íslendinga og fólk komið í skíðaferðir bæði í vetrarfríum og um páskana,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands. Og vinsældir bæjarins meðal Íslendinga eru þýðingamiklar fyrir ferðaþjónustu bæjarins og ekki síður nærsveitir. „Íslendingarnir eru duglegir að nýta sér þjónustu sem er í boði, auðvitað skíðasvæðin og síðan líka sundlaugar, veitingastaði, skemmtistaði og versla vel. Það sem við sjáum gerast nú síðustu tvö árin er að ferðahegðunin er að breytast frá því að vera nánast eingöngu vetrarferðir til Akureyrar yfir í það að Íslendingarnir flakka mikið á milli staða, skreppa í Mývatnssveit í mat og Jarðböðin, fara til Húsavíkur í Sjóböðin, til Siglufjarðar á skíði og auðvitað í Bjórböðin á Árskógssandi. Þessi hópur skilar því miklu fyrir Norðurland og er að fylla inn í erfiðustu mánuðina í ferðaþjónustuna á þessu svæði,“ bætir Arnheiður við.
Að hennar sögn þá hefur veðurfarið áhrif á fjölda íslenskra ferðamanna á Akureyri enda bóka þeir helgarferðir með skemmri fyrirvara en erlendir ferðamenn.  „Nú um páskana eigum við von á metári því veðurspáin er góð, bókunarstaða góð hjá gististöðum og mikið um að vera í menningarlífinu“
Hér hafa flestir Íslendingar bókað gistingu gegnum Booking.com yfir páskana: