Verkfall lamar samgöngur til og frá Skandinavíu

Flugmenn skandinavíska flugfélagsins SAS fóru í verkfall á miðnætti og hefur félagið aflýst hundruðum flugferða sem hefur áhrif á ferðalög tugþúsunda farþega.

Mynd: SAS

Hátt í fimmtán hundruð flugmenn SAS lögðu niður vinnu um miðnætti eftir að ljóst varð að stjórnendur flugfélagsins voru ekki til í að mæta kröfum þeirra um hærri laun. Mikið mun bera á milli viðsemjenda því samkvæmt frétt Sænska ríkisútvarpsins krefjast flugmennirnir  um þrettán prósent launahækkunar á meðan forsvarsmenn SAS hafa aðeins gefið samþykki sitt fyrir rétt um tveggja prósenta hækkun. Á sama tíma eru flugmennirnir ósáttir við að vinnuveitandi þeirra haldi því fram opinberlega að meðallaun stéttarinnar séu um 1,2 milljónir króna. Vilja þeir meina að sú tala gefi ekki rétt mynd af stöðunni því innan stéttarinnar séu flugmenn á mun lægri launum á meðan reynslumiklir flugstjórar hífi upp meðallaunin.

Kjaradeilan snýst þó ekki aðeins um laun því flugmennirnir gera einnig kröfu um að vaktaplön þeirra liggi fyrir fyrr en nú er. Haft er eftir talsmanni flugmanna í Dagens Næringsliv að sú krafa snúist einfaldlega um að fólk nái góðu jafnvægi milli einkalífs og starfsframa.

Nú í morgunsárið hefur SAS aflýst 315 brottförum og þar á meðal flugferðum til Íslands frá Ósló og Kaupmannahöfn. Félagið hefur boðið farþegum að afbóka ferðir dagsins og helgarinnar og fá þær endurgreiddar. Á heimasíðu félagsins er jafnframt tekið fram að farþegar sem ekki kjósa þann kost verði færðir í önnur flug. Réttur farþega á bótum vegna þessa ástands eru þó ekki skýrar þar sem verkföll geta flokkast sem óviðráðanlegar aðstæður.