WOW og erlendu flugfélögin með álíka mikið vægi

Af þeim nærri átján hundruð áætlunarferðum sem farnar voru frá Keflavíkurflugvelli í síðasta mánuði þá stóð WOW air undir rúmum fimmtungi.

Mynd: Isavia

Sumaráætlun flugfélaganna hefst jafnan í lok mars ár hvert. Í framhaldinu fjölgar ferðunum til vinsælustu áfangastaðanna og fleiri borgir bætast við leiðakerfi flugfélaganna. Núna er hins vegar óljóst hvert framhaldið verður eftir fall WOW air. Lággjaldaflugfélagið stóð fyrir 22 af hverjum 100 áætlunarferðum frá Keflavíkurflugvelli í mars en reksturinn stöðvaðist fjórum dögum fyrir mánaðamót og hlutdeildin hefði því orðið hærri að öllu óbreyttu. Vægi erlendu flugfélaganna, ef easyJet er frátalið, var aðeins minna en WOW air eða um 19 prósent samanlagt eins og sjá má.

Í nýliðnu mars fækkaði áætlunarferðum frá Keflavíkurflugvelli um tíund en þrátt fyrir það þá fækkaði ferðafólki aðeins um tvo af hundraði. Skýringin kann að liggja í nokkrum viðbótarferðum á vegum bresku ferðaskrifstofanna Thomson og Jet2 Holidays en einnig gæti hlutfall skiptifarþega hafa dregist saman. Fleiri útlendingar í þotunum sem hingað fljúga skila sér því inn í landið sem ferðamenn.