Yrði ekki skynsamlegt fyrir Icelandair

Stjórnendur Icelandair boða aukið flug til suðurhluta Evrópu. Forstjóri Úrval-Útsýnar segist fagna því en aðeins ef um er að ræða leiguflug.

tenerife flugvollur sighvatur ottarr
Mynd frá árinu 2016 sem sýnir flugvélar WOW, Primera Air og Icelandair við flugstöðina á Tenerife. Mynd: Sighvatur Óttarr

Ásókn Íslendinga í sólarlandaferðir til Tenerife og Kanarí hefur stóraukist síðustu ár og þangað flugu þotur WOW air nokkrar ferðir í viku hverri. Auk þess bjóða stærstu ferðaskrifstofur landsins upp á ferðir til eyjanna og lengi vel var Primera Air einnig með reglulegar brottfarir á vinsælustu sólarstaðina. Icelandair hefur flogið farþegum ferðaskrifstofanna til Kanarí og Alicante en flugfélagið hefur ekki sjálft selt miðana til neytenda á heimasíðu sinni.

Á því kann að verða breyting á næstunni því í tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér í gær segir að í byrjun næsta árs sé ætlunin á að auka flug til Suður-Evrópu í þotum með einu farrými. Aðspurð um nánari útskýringar á þessu þá segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort ferðirnar verði eingögnu seldar sem leiguflug, í gegnum ferðaskrifstofur, eða líka hjá flugfélaginu sjálfu.

Úrval-Útsýn flýgur meðal annars farþegum sínum til Spánar með Icelandair og Þórunni Reynisdóttur, forstjóra ferðaskrifstofunnar, líst ekki á áætlunarferðir flugfélagsins til þessara vinsælu sólarstaða. „Ég tel það ekki skynsamlegt hjá Icelandair að fara út í áætlunarflug til Alicante, Kanarí og Tenerife. Fókusinn hjá þeim ætti frekar að vera á flug fyrir ferðamenn á leið til Íslands. Íslensk ferðaþjónusta og efnahagslíf þarf á því að halda núna. Frá Kanaríeyjum eða Alicante koma engir ferðamenn til Íslands því þetta eru flugleiðir sem aðeins Íslendingar nýta sér og við höfum átt mjög gott samstarf við Icelandair með að bjóða upp á flugið þeirra í okkar ferðum til þessara staða. Við myndum hins vegar fagna auknu leiguflugi með Icelandair til Suður-Evrópu enda höfum við keypt mikið af flugsætum hjá félaginu fyrir viðskiptavini okkar í gegnum tíðina.“