Á nýjum þotum til Íslands í sumar

Í sumar mun flugfélagið airBaltic fljúga hingað til lands þrisvar í viku frá höfuðborg Lettlands.

Ný Airbus 220-300 á vegum airBaltic. Mynd: airBaltic

Nú er þriðja sumarvertíð lattneska flugfélagsins airBaltic á Keflavíkurflugvelli hafin og að þessu sinni munu þotur félagsins fljúga hingað frá Riga þrisvar sinnum í viku í stað tveggja ferða áður. Í tilkynningu er haft eftir Martin Gauss, forstjóra airBaltic, að eftirspurn eftir Íslandsfluginu sé mikil og í heildina muni flugfélagið fjölga sætunum til Íslands um 29 prósent í sumar.

Endurnýjun á flugflota lattneska flugfélagsins er langt á veg komin og nýjar Airbus 220-300 þotur hafa að mestu leyst af hólmi eldri Boeing 737 þotur félagsins. Nýju flugvélarnar eru um fimmtungi sparneyttari en þær gömlu og losunin vegna flugrekstrarins dregst því verulega saman. Í Airbus þotunum eru 145 sæti eða álíka mörg sæti og voru í Boeing þotunum sem airBaltic hefur hingað til notað í ætlunarflugið til Íslands frá Riga.

Auk airBaltic þá býður Wizz Air upp á beint flug hingað frá lattnesku höfuðborginni. Fyrir Íslendinga á leið til Austur- eða Suðaustur-Evrópu þá er hægt að bóka tengiflug með airBaltic  í gegnum Riga og ferðast á einum miða. Þá er farþeginn á ábyrgð flugfélagsins ef seinkanir verða til þess að flugáætlunin riðlast. Þá þjónustu býður Wizz Air ekki upp á. Og samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu þá er það algengast að farþegar airBaltic sem koma frá Íslandi fljúgi áfram til Tallinn, Vilnius, Moskvu, Tel Aviv eða til Kænugarðs.