Auglýsa eftir nýjum forstjóra Isavia

Aðeins stjórnendur með víðtæka og farsæla reynslu koma til greina í forstjórastól Isavia.

Eftir að hafa leitt Isavia í áratug hefur Björn Óli Hauksson ákveðið að láta gott heita líkt og fram kom í tilkynningu sem send var fjölmiðlum kvöldið fyrir skírdag. Í dag auglýsir Isavia svo eftir eftirmanni Björns Óla og gert er ráð fyrir að viðkomandi hafi háskólamenntun, víðtæka og farsæla reynslu af stjórnun auk framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum og reynslu af alþjóðasamstarfi.

Í auglýsingunni segir að nýr forstjóri muni vinna að frekari uppbyggingu á starfsemi fyrirtækisins og hafa yfirumsjón með daglegum rekstri fyrirtækisins. Viðkomandi á jafnframt sífellt að leita leiða til að þróa ný tækifæri og að styrkja reksturinn með langtímahagsmuni Isavia að leiðarljósi. Umsóknarfrestur er til mánudagsins 13. maí næstkomandi.

Það er Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sem fer með hlut ríkisins í Isavia en stjórn þess opinbera fyrirtækis er skipuð fulltrúum stjórnarflokkanna þriggja auk fulltrúa Pírata og Miðflokksins. Gera má ráð fyrir að þessi hópur komi að ráðningu nýs forstjóra.

Á aðalfundi fyrirtækisins í lok mars lét Ingimundur Sigurpálsson, fráfarandi forstjóri Íslandspósts, af embætti stjórnarformanns og við tók Orri Hauksson, forstjóri Símans.