Aukin framleiðni í ferðaþjónustu

Það voru áttatíu ferðamenn á hvern starfsmann í ferðaþjónustu í fyrra en þeir voru 39 árið 2008. Ríflega þriðji hver starfsmaður í greininni vinnur í veitingasölu eða þjónustu og um fjórða hvert starf tengist gistirekstri.

Mynd: Nicolas J Leclercq

Ferðaþjónustan átti stóran þátt í að draga úr atvinnuleysi hér á landi því á árunum 2011 til 2018 sköpuðust 17 þúsund störf í greininni eða rúmlega þriðjungur allra nýrra starfa á tímabilinu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Íslandsbanka sem kynnt var í morgun. Þar segir jafnframt að ef atvinnugreinum sem tengjast ferðaþjónustu er bætt við hækkar hlutfallið enn meira. Þannig tengjast umsvif í verslun og byggingariðnaði ferðaþjónustunni óbeint.

Fjölmennasti geirinn innan ferðaþjónustunnar er veitingasala og -þjónusta en þar starfa 37 prósent þeirra sem vinna í greininni. Næstflest störf tengjast gistirekstri eða 24 prósent og 19 prósent stöðugilda má rekja til flugreksturs. Í fyrra höfðu tæplega 29 þúsund manns atvinnu af ferðaþjónustu eða sjöundi hver launþegi hér á landi samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu Íslandsbanka.

Þar segir jafnframt að framleiðni vinnuafls í ferðaþjónustu hafi aukist töluvert á undanförnum árum og hvert starf innan ferðaþjónustunnar skili auknum virðisauka miðað við áður. „Fjöldi ferðamanna á hvern starfsmann hefur aukist töluvert á undanförnum árum. Á árinu 2018 voru um 80 ferðamenn á hvern starfsmann í ferðaþjónustu en til samanburðar voru þeir 39 árið 2008. Fjöldi ferðamanna á hvern starfsmann hefur því meira en tvöfaldast á síðustu tíu árum. Ætla má að fjöldi starfsmanna á hvern ferðamann hafi náð hæstu hæðum árið 2018 og muni fækka árið 2019,“ segir í skýrslunni.

Sérfræðingar Íslandsbanka benda þó á að hjöðnun á vinnumarkaði í ferðaþjónustu sé hafin og störfum í greininni hafi fækkað. Er þá horft til starfsfólks WOW air og uppsagna hjá öðrum fyrirtækjum sem reiddu sig á starfsemi flugfélagsins. „Ef gert er ráð fyrir að öll þessi störf tengjast ferðaþjónustu þá fækkaði störfum innan ferðaþjónustunnar um 5 prósent á þessu tímabili. Þess má vænta að störfum muni fækka enn meira á næstu misserum.“