Demantshringurinn fjölgi ferðamönnum á Norðurlandi

Bundið slitlag á Dettifossvegi veitir ferðaþjónustunni fyrir norðan ný tækifæri.

Demantshringurinn er vegur sem liggur frá Húsavík að Ásbyrgi og þaðan að Dettifossi. Frá fossinum liggur leiðin að Mývatni svo niður Reykjadal og Aðaldal aftur til Húsavíkur. Myndir: Markaðsstofa Norðurlands

Markaðsstofa Norðurlands og Húsavíkurstofa hafa gert með sér samstarfssamning um notkun á heitinu Diamond Circle sem er í eigu Húsavíkurstofu. Markaðsstofan vinnur nú að þróun ferðamannaleiða á Norðurlandi, en á grundvelli þessa samnings verður hægt að þróa vörumerki og efla markaðssetningu fyrir Diamond Circle eða Demantshringinn samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu. Þar segir jafnframt að í sumar sé áætlað að klára vinnu við lagningu á bundnu slitlagi á Dettifossvegi og þar með skapast betra tækifæri fyrir markaðssetningu og þróun ferðaþjónustu við hringleiðina.

Aðspurð um hvaða lærdóm megi draga af markaðssetningu Gullna hringsins við þróun Demantshringsins þá segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar, að upp að vissu marki megi segja verkefnin sambærileg. „Við erum með heiti sem nær yfir ákveðna ferðaleið sem inniheldur ákveðna afþreyingu, þjónustu og sérstæða náttúru. Við ætlum að nýta aðferðafræði við þróun ferðamannaleiða til þess að skilgreina sérstöðuna og það framboð þjónustu sem þarf að vera til staðar. Á þessu svæði eru hins vegar færri fyrirtæki og einnig eru þau flest minni en á suðvesturhorninu svo að nauðsynlegt er að nota aðrar leiðir til markaðssetningar heldur en það sem gert hefur verið með Gullna hringinn sem er nálægt aðal innkomustaðnum inn í landið og aðdráttarafl sem mjög mörg öflug fyrirtæki eru að selja.“

Að mati Arnheiðar þá má gera ráð fyrir breyttri ferðahegðun þegar bundið slitlag verður komið allan Dettifossveg þar sem ferðamenn keyra í dag gjarnan að fossinum frá Mývatnssveit og snúa svo við aftur þangað. „Breytingin verður því mikil fyrir það svæði sem nú opnast bætt aðgengi að, það er Norðurhjarasvæðið (Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn), Ásbyrgi og auðvitað Húsavík sem verður nú hluti af aðgengilegum hring. Í dag eru aðeins um 36 þúsund erlendir ferðamenn á Norðurhjara svæðinu á hverju ári en fimm til sex hundruð þúsund erlendir ferðamenn í Mývatnssveit.“

Arnheiður segir erfitt að segja til um hversu margir munu keyra þessa leið en markmiðið er að ná til meirihluta ferðamanna á þessu svæði auk þess sem Demantshringurinn verði öflugur segull sem mun fjölga ferðamönnum á Norðurlandi.