easyJet sker niður Íslands­flug

Minnkandi eftirspurn eftir Íslandsferðum skrifast á hátt verðlag að mati stjórnenda easyJet sem hafa dregið úr flugi til Keflavíkurflugvallar þrátt fyrir gjaldþrot WOW air. Á móti kemur að bæði British Airways og Wizz Air munu fjölga ferðum hingað frá London í vetur.

Um borð í þotu easyJet. Mynd: easyJet

Það var í mars árið 2012 sem breska lággjalda­flug­fé­lagið easyJet hóf að fljúga til Íslands. Fyrst frá Luton, nærri London, en fljót­lega bættust við ferðir frá fleiri breskum flug­völlum og eins frá sviss­nesku borg­unum Basel og Genf. Með þessu stór­aukna fram­boði á Íslands­flugi, á vegum stærsta lággjalda­flug­fé­lags Bret­lands, þá fjölgaði bresku ferða­fólki hér á landi hratt og ferða­mynstrið breyttist umtals­vert. Bretar sækja nú miklu frekar í vetr­ar­dvöl og til að mynda komu hingað fleiri Bretar í febrúar í fyrra en saman­lagt yfir sumar­mán­uðina þrjá.

Undan­farið hefur easyJet hins vegar verið að draga úr flugi til Kefla­vík­ur­flug­velli og sú þróun mun halda áfram jafnvel þó WOW air sé nú farið af mark­aðnum. „Við höfum dregið úr fram­boði vegna minnk­andi eftir­spurnar sem skrifast á hækk­andi verðlag á Íslandi,” segir Andy Cockburn, tals­maður easyJet, um ástæður samdrátt­arins sem sjá má í núver­andi flugáætlun félagsins. Hann bætir því við að Ísland sé enn vinsæll áfanga­staður hjá viðskipta­vin­unum easyJet en félagið einbeiti sér að flug­leiðum þar sem eftir­spurnin er mest.

Til marks um samdráttinn sem nú verður hjá easyJet þá fækkar áætl­un­ar­ferðum félagsins í janúar um 17 prósent og um tíund í febrúar samkvæmt taln­ingu Túrista. Samtals rétt rúmlega fimmtíu ferðir samtals þessa tvo mánuði. Munar mestu um að félagið ætlar ekki að fljúga hingað frá London Stan­sted og til viðbótar er ekki hægt að bóka neitt flug til Íslands í vetur með easyJet frá Basel eða Genf.  Þær flug­leiðir bætast þó stundum við leiða­kerfi easyJet með litlum fyrir­vara eins og Túristi hefur greint frá í gegnum tíðina.

Það sem vegur upp á móti niður­skurð­inum í Bret­lands­flugi easyJet og brott­hvarfi WOW air eru tíðari ferðir frá London á vegum Wizz Air og British Airways. Þotur þess fyrr­nefnda munu fljúga daglega hingað frá Luton flug­velli en áform um svo tíðar ferðir gengu ekki eftir í fyrra þar sem afkoma af flug­leið­inni var ekki nægj­an­lega góð. Stjórn­endur British Airways sjá einnig tæki­færi í auknu flugi hingað miðað við þann fjölda ferða sem nú er hægt að bóka á heima­síðu félagsins til Íslands frá bæði Heathrow og London City flug­velli. En eins og fram hefur komið í viðtölum Túrista við forsvars­menn British Airways þá hafa tengifar­þegar frá Asíu verið stór hluti af þeim sem nýtt hafa sér Íslands­flug félagsins og flóra farþega um borð því líklega fjöl­breyttari en í ferðum easyJet og Wizz air til Íslands.

Síðustu tvo vetur hefur easyJet verið umsvifa­meira í Lund­únar­flugi en Icelandair þegar litið er til fjölda ferða. Samdrátt­urinn hjá breska félaginu verður hins vegar til þess að Icelandair er ný það flug­félag sem er með flestar ferðir héðan til London. Núver­andi flugáætlun félagsins gerir hins vegar ekki ráð fyrir fleiri ferðum en í fyrra enda eru öll lend­inga­leyfi uppseld á Heathrow og lítið hægt að bæta í á Gatwick flug­velli. Til marks um það þá gat WOW air komið lend­inga­leyfum sínum á Gatwick í verð til að bæta fjár­hags­stöðu sína. Það ber líka að hafa í huga að íslensku flug­fé­lögin hafa verið með mjög hátt hlut­fall tengifar­þega um borð á meðan nær eingöngu ferða­menn á leið til Íslands sitja í vélum erlendu flug­fé­lag­anna.

Þess má geta að tvær breskar ferða­skrif­stofur, Jet2holidays og Thomson, bjóða upp á vetr­ar­ferðir til Íslands og lenda þotur félag­anna á Kefla­vík­ur­flug­velli í viku hverri yfir hávet­urinn. Því til viðbótar heldur Akur­eyr­arflug bresku ferða­skrif­stof­unnar Super Break áfram í vetur.