Samfélagsmiðlar

easyJet sker niður Íslandsflug

Minnkandi eftirspurn eftir Íslandsferðum skrifast á hátt verðlag að mati stjórnenda easyJet sem hafa dregið úr flugi til Keflavíkurflugvallar þrátt fyrir gjaldþrot WOW air. Á móti kemur að bæði British Airways og Wizz Air munu fjölga ferðum hingað frá London í vetur.

Um borð í þotu easyJet.

Það var í mars árið 2012 sem breska lággjaldaflugfélagið easyJet hóf að fljúga til Íslands. Fyrst frá Luton, nærri London, en fljótlega bættust við ferðir frá fleiri breskum flugvöllum og eins frá svissnesku borgunum Basel og Genf. Með þessu stóraukna framboði á Íslandsflugi, á vegum stærsta lággjaldaflugfélags Bretlands, þá fjölgaði bresku ferðafólki hér á landi hratt og ferðamynstrið breyttist umtalsvert. Bretar sækja nú miklu frekar í vetrardvöl og til að mynda komu hingað fleiri Bretar í febrúar í fyrra en samanlagt yfir sumarmánuðina þrjá.

Undanfarið hefur easyJet hins vegar verið að draga úr flugi til Keflavíkurflugvelli og sú þróun mun halda áfram jafnvel þó WOW air sé nú farið af markaðnum. „Við höfum dregið úr framboði vegna minnkandi eftirspurnar sem skrifast á hækkandi verðlag á Íslandi,“ segir Andy Cockburn, talsmaður easyJet, um ástæður samdráttarins sem sjá má í núverandi flugáætlun félagsins. Hann bætir því við að Ísland sé enn vinsæll áfangastaður hjá viðskiptavinunum easyJet en félagið einbeiti sér að flugleiðum þar sem eftirspurnin er mest.

Til marks um samdráttinn sem nú verður hjá easyJet þá fækkar áætlunarferðum félagsins í janúar um 17 prósent og um tíund í febrúar samkvæmt talningu Túrista. Samtals rétt rúmlega fimmtíu ferðir samtals þessa tvo mánuði. Munar mestu um að félagið ætlar ekki að fljúga hingað frá London Stansted og til viðbótar er ekki hægt að bóka neitt flug til Íslands í vetur með easyJet frá Basel eða Genf.  Þær flugleiðir bætast þó stundum við leiðakerfi easyJet með litlum fyrirvara eins og Túristi hefur greint frá í gegnum tíðina.

Það sem vegur upp á móti niðurskurðinum í Bretlandsflugi easyJet og brotthvarfi WOW air eru tíðari ferðir frá London á vegum Wizz Air og British Airways. Þotur þess fyrrnefnda munu fljúga daglega hingað frá Luton flugvelli en áform um svo tíðar ferðir gengu ekki eftir í fyrra þar sem afkoma af flugleiðinni var ekki nægjanlega góð. Stjórnendur British Airways sjá einnig tækifæri í auknu flugi hingað miðað við þann fjölda ferða sem nú er hægt að bóka á heimasíðu félagsins til Íslands frá bæði Heathrow og London City flugvelli. En eins og fram hefur komið í viðtölum Túrista við forsvarsmenn British Airways þá hafa tengifarþegar frá Asíu verið stór hluti af þeim sem nýtt hafa sér Íslandsflug félagsins og flóra farþega um borð því líklega fjölbreyttari en í ferðum easyJet og Wizz air til Íslands.

Síðustu tvo vetur hefur easyJet verið umsvifameira í Lundúnarflugi en Icelandair þegar litið er til fjölda ferða. Samdrátturinn hjá breska félaginu verður hins vegar til þess að Icelandair er ný það flugfélag sem er með flestar ferðir héðan til London. Núverandi flugáætlun félagsins gerir hins vegar ekki ráð fyrir fleiri ferðum en í fyrra enda eru öll lendingaleyfi uppseld á Heathrow og lítið hægt að bæta í á Gatwick flugvelli. Til marks um það þá gat WOW air komið lendingaleyfum sínum á Gatwick í verð til að bæta fjárhagsstöðu sína. Það ber líka að hafa í huga að íslensku flugfélögin hafa verið með mjög hátt hlutfall tengifarþega um borð á meðan nær eingöngu ferðamenn á leið til Íslands sitja í vélum erlendu flugfélaganna.

Þess má geta að tvær breskar ferðaskrifstofur, Jet2holidays og Thomson, bjóða upp á vetrarferðir til Íslands og lenda þotur félaganna á Keflavíkurflugvelli í viku hverri yfir háveturinn. Því til viðbótar heldur Akureyrarflug bresku ferðaskrifstofunnar Super Break áfram í vetur.

Nýtt efni

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …

Allt frá því að Play var skráð á hlutabréfamarkað sumarið 2021 og fram til ársloka 2022 var Fiskisund ehf. stærsti hluthafinn í Play með 8,6 prósenta hlut. Fyrir Fiskisundi fóru þau Kári Þór Guðjónsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Einar Örn Ólafsson, sem lengi var stjórnarformaður flugfélagsins en settist í forstjórastólinn um síðustu mánaðamót. Einar Örn átti einnig …

Flugstöðin í Changi í Singapúr er ekki lengur í efsta sæti á árlegum lista Skytrax yfir bestu flugvellina heldur í öðru sæti. Hamad alþjóðaflugvöllurinn í Doha í Katar toppar nú listann sem birtur var í gær en hann byggir á einkunnagjöf farþega. Í þriðja sæti er Incheon í Seoul en í næstu tveimur sætum eru …

Fyrsta skemmtiferðaskip ársins kom til Ísafjarðar um síðustu helgi, þýska AIDAsol með nærri í 2.200 farþega. Á sunnudag koma tvö skip með væntanlega 3.000 - 4.000 farþega. Það er farþegafjöldi undir öllum viðvörunarmörkum sem Ísafjarðarbær ætlar að fylgja í framtíðinni vegna komu skemmtiferðaskipa. Nýsamþykktar fjöldatakmarkanir gilda raunar ekki á þessu ári þar sem bókanir hafa …