Eina aðkoma Björgólfs Thors að WOW

Allt frá upphafsdögum WOW air hafa verið uppi sögusagnir um að Björgólfur Thor Björgólfsson kæmi að fjármögnum flugfélagsins. Það var hins vegar fyrst í kringum skuldabréfaútgáfuna síðastliðið haust sem hann setti pening í flugfélagið hans Skúla Mogensen.

Mynd: Sigurjón Ragnar / sr-photos.com

Fé­lag í eigu Björgólfs Thors Björgólfs­son­ar tók þátt í skulda­fjárút­boði flug­fé­lags­ins WOW air síðastliðið haust og skráði sig fyr­ir 3 millj­ón­um evra, rúmar fjögur hundruð milljónir króna. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag og staðfestir Ragnhildur Sverrisdóttir, talskona Björgólfs Thors, það við Túrista að hann hafi lagt fram þessa upphæð. Aðspurð segir hún að þessi „skuldabréfakaup á lokametrunum“ muni hafa verið eina aðkoma Björgólfs Thors að WOW air.

Orðrómur hefur verið uppi um árabil um að Björgólfur Thor hafi komið að fjármögnum WOW air með einum eða öðrum hætti. Þeim sögusögnum hefur Skúli Mogensen endurtekið neitað og sömuleiðis Ragnhildur fyrir hönd Björgólfs Thors.

Frétt Morgunblaðsins um skuldabréfakaup Björgólfs Thors byggja á kafla úr bók Stefáns Einars Stefánssonar, viðskiptafréttastjóra blaðsins, sem kemur út í dag og ber heitið WOW: ris og fall flug­fé­lags.