Einn besti áfangastaður Evrópu

Norðurstrandarleiðin verður formlega opnuð þann 8. júní en hún hefur þegar fengið töluverða umfjöllun í erlendu ferðapressunni. Nú síðast í Lonely Planet.

Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Norðurstrandarleið eða Arctic Coast Way eins og hún heitir á ensku er á lista Lonely Planet yfir þá tíu áfangastaði í Evrópu sem best er að heimsækja. Lonely Planet sem er einn vinsælasti útgefandi ferðahandbóka í heiminum og hefur mikla útbreiðslu.

Í umfjöllun Lonely Planet segir meðal annars að á Norðurstrandarleiðinni sé að finna allt það besta sem Íslandi hafi að bjóða, en um fáfarnari slóðir. „Frá söguslóðum til miðstöðva hvalaskoðunar, þá býður hvert lítið þorp og bær upp á innsýn inn í lífið á toppi veraldarinnar,“ segir í umsögn á vef útgefandans.

Í fréttatilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands segir að val Lonely Planet sé mikil viðurkenning fyrir allt það starf sem nú þegar hefur verið unnið við að koma Arctic Coast Way af stað, en leiðin verður formlega opnuð þann 8. júní næstkomandi. „Með þróun Norðurstrandarleiðar, verður til aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem vilja halda sig utan alfaraleiðar og gera það með því að fara meðfram strandlengju Norðurlands. Samtals er leiðin um 900 kílómetra löng, með 21 bæ eða þorpi og fjórum eyjum sem auðveldlega er að hægt að komast út í með bát eða ferju. Ferðafólk sem fer þessa leið fær tækifæri til að ná betri tengslum við náttúruna, litskrúðugt menningarlíf og einnig hið daglegt amstur þeirra sem búa í nálægt við norðurheimskautsbauginn,“ að því fram kemur í tilkynningu.