Engin áform um aukið Íslandsflug í vetur

Stjórnendur stærstu flugfélagasamsteypu Evrópu sjá ekki tækifæri í að fjölga ferðunum til Keflavíkurflugvallar.

Innan Lufthansa Group eru fimm alþjóðleg flugfélög auk nokkurra minni félaga. Mynd: Lufthansa Group

Flugfélögin innan Lufthansa Group flugu í fyrra með rúmlega 142 milljónir farþega og telst fyrirtækið vera það umsvifamesta í Evrópu þegar kemur að flugsamgöngum. Auk þýska flugfélagsins Lufthansa þá eru Austrian Airlines, SWISS, Eurowings og Brussel Airlines hluti að samsteypunni og því til viðbótar rekur fyrirtækið leiguflugfélög og áætlunarfélög innan Evrópu.

Þrátt fyrir stærðina og sífellt tíðari ferðir til skandinavískra áfangastaða þá fljúga þotur Lufthansa og dótturfélaga þess ekki oft hingað til lands. Lufthansa sjálft býður upp á sumarflug hingað frá bæði Frankfurt og Munchen og því til viðbótar er hægt að fljúga með Austrian Airlines hingað frá Vínarborg og með Eurowings frá Köln og Hamborg yfir hásumarið. Á veturna takmarkast flugið hins vegar við þrjár ferðir í viku með Lufthansa til Frankfurt og síðustu ár hefur félagið verið í samkeppni við bæði Icelandair og WOW air á þeirri flugleið.

Þotur íslensku félaganna flugu allt að daglega til þýsku borgarinnar síðastliðinn vetur og þrátt fyrir það skarð sem WOW air skilur nú eftir sig á markaðnum þá sjá stjórnendur Lufthansa ekki tækifæri í að fjölga ferðunum hingað. Í svari við fyrirspurn Túrista segir Boris Ogursky, talsmaður félagsins, að á komandi vetri verði haldið áfram að fljúga þrisvar í viku til Íslands frá Frankfurt og á þessu stigi séu ekki ráðgerðar neinar breytingar á þeirri áætlun. Varðandi sumarið þá segir Ogursky að Lufthansa munu mögulega nýta stærri gerðina af Airbus A320 þotum í flugið til Íslands þá daga sem eftirspurnin standi undir þess háttar breytingum.

Sem fyrr segir er Lufthansa mjög umsvifamikið í fólksflutningum innan Evrópu en einnig til og frá álfunni. Farþegarnir sem fljúga með félaginu hingað til lands koma því víða að líkt og fram hefur komið í viðtölum Túrista við forsvarsmenn félagsins. Þannig sýndi tölfræði félagsins að Þjóðverjar fylla tæplega þrjú af hverjum tíu sætum í Íslandsflugi Lufthansa. Ítalír, Ísraelar, Frakkar og Kínverjar eru einnig fjölmennir um borð og þá voru Íslendingar um 8 af hverjum 100 farþegum.