Ennþá óljóst hvernig selja á flugið til Suður-Evrópu

WOW air var stórtækt í áætlunarflugi til sólarlanda og forsvarsmenn Icelandair hafa gefið út að félagið stefni á aukin umsvif á þeim markaði. Það liggur þó ekki fyrir með hvaða hætti það verður gert.

Við sundlaugarbakka á Tenerife. Mynd: Ferðamálaráð Spánar

Aðeins tveimur vikum eftir fall WOW air þá boðaði Icelandair aukið flug til sólar­landa í þotum með eitt farrými. Það fylgdi þó ekki sögunni hvort Icelandair ætlaði að selja þessar ferðir beint á heima­síðu sinni eða halda áfram að fljúga aðeins til Tenerife, Kanarí og Alicante í leiguflugi með viðskipta­vini ferða­skrif­stofa. WOW air var hins vegar stór­tækt í hefð­bundnu áætl­un­ar­flugi til þessara sólar­staða og flaug þegar mest lét allt að þrjár ferðir í viku til Tenerife auk reglu­legra brott­fara til Alicante og Las Palmas.

Nú þegar rúmur mánuður er liðinn frá því að stjórn­endur Icelandair tilkynntu um þessi áform sín í suður­hluta álfunnar er ennþá óljóst hvernig staðið verði að sölu á flug­ferð­unum. Í svari Ásdísar Péturs­dóttur, upplýs­inga­full­trúa Icelandair, segir að málið sé í vinnslu og ákvörðun liggi ekki fyrir.

Ein þeirra ferða­skrif­stofa sem hefur keypt sæti í leiguflugi Icelandair til sólar­landa er Úrval Útsýn og í viðtali við Túrista, daginn eftir að ófull­mótuð áform Icelandair voru birt, sagði Þórunn Reyn­is­dóttir, forstjóri ferða­skrif­stof­unnar, að hún teldi það ekki skyn­sam­legt hjá félaginu að hefja áætl­un­ar­flug til Suður-Evrópu. Fyrir­tækið ætti frekar að einbeita sér að áætl­un­ar­flugi til áfanga­staða sem skila fleiri ferða­mönnum til Íslands. Það eru nefni­lega nær eingöngu Íslend­ingar sem sitja í þotunum sem fljúga héðan til áfanga­staða eins og Tenerife, Las Palmas og Alicante.

Sem fyrr segir er ennþá ekki ljóst hvort Icelandair selji sætin beint í Spán­ar­flugið en það á að hefjast á í byrjun næsta árs. Ein skýr­ining á því að óvissa ríkir ennþá um málið kann að vera sú að stjórn­endur Icelandair hafi viljað gefa það strax út, eftir fall WOW, að þeir ætli sér aukin umsvif í sólar­landa­flugi og þar með vonast til að fæla aðra frá. Heims­ferðir hafa til að mynda samið við Norwegian um flug til Kanarí og Tenerife í vetur og af því tilefni sagði Tómas J. Gestsson, forstjóri Heims­ferða, að það væri ekki ósenni­legt að fleiri áfanga­staðir ættu eftir að bætast við.

Auk Heims­ferða þá eru Úrval-Útsýn og Vita umsvifa­mestu ferða­skrif­stofur landsins og er sú síðast­nefnda dótt­ur­félag Icelandair Group.