Fargjöldin frá Akur­eyri til Hollands hafa hækkað hratt

Í dag var komið að jómfrúarferð Transavia frá Rotterdam til Akureyrar. Lægstu fargjöldin, báðar leiðir, eru á um 50 þúsund krónur í dag.

Þota hollenska lággjaldaflugfélagsins Transavia á Akureyrarflugvelli í morgun. Mynd: Isavia

Hollenska ferða­skrif­stofan Voigt Travel og lággjalda­flug­fé­lagið Transavia standa í sumar fyrir reglu­legum flug­ferðum milli Akur­eyrar og Rotterdam. Í dag var fyrsta ferðin af sextán á dagskrá og af því tilefni var tilkynnt að átta ferðir í viðbót verði í boði til Akur­eyrar í vetur en þá frá Amsterdam.

Í dag kosta ódýrstu flug­mið­arnir í sumar, báðar leiðir, með Transavia frá Akur­eyri til Rotterdam um 50 þúsund krónur. Oftast er fargjaldið þó nokkru hærra. Þetta er tölu­verð breyting á stuttum tíma því fyrir mánuði síðan var hægt að fá farmiða á mörgum dagsetn­ingum á rétt um 35 þúsund krónur líkt og Túristi greindi frá. Af þessari verð­þróun að dæma þá hefur nýju flug­leið­inni verið vel tekið.

Transavia hefur um langt skeið flogið til Íslands frá París á sumrin og í júlí hefst áætl­un­ar­flug félagsins frá Amsterdam. En sem fyrr segir hefst flug frá hollensku höfuð­borg­inni til Akur­eyrar í vetur á vegum Voigt Travel og Transavia. „Sem ferða­skrif­stofa þurfum við stöðugt að skapa okkur sérstöðu,“ segir Cees van den Bosch, forstjóri Voigt Travel, í tilkynn­ingu. „Ísland hefur aldrei verið vinsælla, en aðal­lega fyrir stutt stopp sem viðkomu­staður, og þessi magnaði áfanga­staður á betra skilið en það. Þess vegna höfum við vísvit­andi valið að fljúga til Akur­eyrar til að gera farþegum okkar kleift að ferðast strax utan alfara­leiða og taka sér tíma til að kanna landið. Norð­ur­hluti Íslands er enn að miklu leyti ósnortinn og þar má finna alveg jafn­mikið af fossum, svörtum ströndum, eldfjöllum og leir­böðum og á Suðvest­ur­landi.“