Ferðamálin fái á ný eigin stofnun

Það er órói innan norska ferðageirans vegna tillagna sem snúa að breyttu fyrirkomulagi á skipulagningu greinarinnar, kynningarmálum og framlögum frá hinu opinbera.

Ferðamaður í Noregi. Mynd: Bergen Tourist Board / Robin Strand – visitBergen.com

Í Noregi heyrir markaðssetning og kynning á landinu sem ferðamannastað undir Innovasjon Norge og hefur stofnunin jafnframt hefur það verkefni að styðja við norska útflytjendur og auðvelda þeim að koma sér á framfæri í útlöndum. Hér á landi er það Íslandsstofa sem hefur þessi mál á sinni könnu og er hún á margan hátt sambærileg stofnun og Innovasjon Norge. Sú norska var stofnuð árið 2004 og tók þá yfir öll verkefni norska ferðamálaráðsins á meðan Íslandsstofa fékk eingöngu kynningarhlutann frá Ferðamálastofu þegar hún var sett á laggirnar árið 2010.

Fyrirkomulagið í Noregi hefur því verið í gildi í fimmtán ár en í nýrri úttekt á vegum norsku ríkisstjórnarinnar er mælt með því að ferðamálin verði skilin frá Innnovasjon Norge og sett í sérstofnun á vegum hins opinbera. Er það mat skýrsluhöfunda að með þessu fáist aukin skilvirkni í starfsemina og forgangsröðun verði í takt við þarfir og óskir atvinnugreinarinnar samkvæmt því sem fram kemur í frétt Dagens Næringsliv. Þar er rætt við forstjóra Hurtigruten og Scandic hótelanna, tveggja stórfyrirtækja í greininni, sem báðir segjast vera stuðningsmenn tillögurnar þar sem þeir telja ekki nægan fókus á ferðamálin í dag innan Innovasjon Norge. Forstjórarnir vilja þó hvorugir að ný stofnun yrði aðeins rekin af ríkinu heldur vilja þeir frekar að hún verði samstarfsvettvangur atvinnulífsins og hins opinbera og vísa þar til fyrirkomulagsins í Danmörku og Svíþjóð. Þetta er einnig sá grunnur sem Íslandsstofa byggir á. Meðal efasemdamanna um að færa ferðamálin í sérstofnun er hins vegar viðskiptaráðherrann sjálfur, Torbjørn Røe Isaksen, sem telur það vera kost að útflutningsgreinarnar séu undir einum hatti.

Möguleg endurreisn norska ferðamálaráðið er ekki eina málið sem veldur titringi í ferðaþjónustunni þar í landi nú um mundir. Tillaga um verulegan niðurskurð á fjármagni til kynningar og markaðssetningar á Noregi sem áfangastað er líka umdeild. Þar er rætt um að skera niður framlag hins opinbera til málaflokksins um nærri sjö hundruð milljónir króna (50 milljónir norskra) sem jafngildir um fimmtungs samdrætti og er það mat skýrsluhöfunda að það muni ekki hafa neikvæð áhrif á fjölda ferðamanna. Niðurstöður annarrar úttektar, sem unnin var fyrir viðskiptaráðuneytið norska, styðja við þennan niðurskurð en þar er m.a. lagt til að kynning á Noregi sem ferðamannastað eigi að aðallega að byggja á bættri upplýsingagjöf til þeirra sem koma til landsins í stað þess að laða að fleiri ferðamenn.

Forsvarsfólk ferðaþjónustufyrirtækja hefur gagnrýnt niðurstöður þessara tveggja úttekta. „Það að skera niður framlagið til Visit Norway er veðmál sem verður að byggja á mun betri grunni en þessar tvær skýrslur eru,“ segir varaformaður samtaka ferðaþjónustunnar í Noregi í viðtali við Dagens Næringsliv.