Fjórðu hverri flugferð seinkaði í apríl

Af fimm stærstu flugvöllum Norðurlanda þá var stundvísin lökust á Keflavíkurflugvelli.

Mynd: Isavia

Rétt um þrjár af hverjum fjórum áætlunarferðum, til og frá Keflavíkurflugvelli, stóðust áætlun í síðasta mánuði. Þetta má sjá á tölum á Mælaborði ferðaþjónustunnar en þar eru nú birtar reglulega upplýsingar um stundvísi í flugi til og frá landinu. Hlutfall ferða á áætlun hjá Icelandair var álíka hátt og á flugvellinum öllum enda stendur íslenska félagið nú undir bróðurparti alls millilandaflugs héðan.

Af erlendu flugfélögunum sem fljúga hingað oftast þá stóð easyJet sig best því Íslandsflug félagsins stóðst áætlun í um 86 prósent tilvika.

Þegar stundvísin hér heima er borin saman við stærstu flugvelli Norðurlanda þá kemur í ljós að farþegar hér á landi þurftu oftar að sætta sig við seinkanir. Þetta sýna stundvísitölur rannsóknarfyrirtækisins OAG en þar er aðeins horft til brottfara en ekki komutíma. Þar með er nokkurra prósentustiga munur á tölum OAG og útreikningum Ferðamálastofu sem birtast á Mælaborði ferðaþjónustunnar.