Hlutu þjónustuverðlaun Keflavíkurflugvallar

Gleraugnabúðin Optical Studio og veitingastaðurinn Mathús komu best út úr könnunum á þjónustunni í Leifsstöð.

Mynd: Isavia

Þjónustuverðlaun Isavia fyrir árið 2018 voru afhent við hátíðlega athöfn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í vikunni. Að þessu sinni féllu þjónustuverðlaun verslana í hlut sjóntækjaverslunarinnar Optical Studio en í flokki veitingastaða var það Mathús sem var hlutskarpast. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia.

Þar segir jafnframt að niðurstaðan byggi á markaðsrannsóknum og könnunum sem gerðar eru á Keflavíkurflugvelli. Meðal þeirra þátta sem litið er til er hvenrig afgreiðslufólk nálgast viðskiptavini og hvort bæði vörur og upplýsingar um verð séu aðgengilegar.

Morgunblaðið greindi frá því í gær að þrátt fyrir samdrátt í verslun og veitingasölu í Leifsstöð í ár þá hefði velta á hvern farþega aukist. Ein af skýringunum á þessari þróun er sú að nú er ekki eins þröngt á þingi í flugstöðinni og þar með má gera ráð fyrir að biðraðir hafi styst. Tengifarþegum hefur líka fækkað eftir brotthvarf WOW air og þeir versluðu almennt minna og keyptu færri veitingar samkvæmt því sem fram kemur frétt Morgunblaðsins.