Kolefnis­jafna nærri helming útblásturs

Arctic Adventures hefur skuldbundið sig til að gróðursetja tíu þúsund tré.

Reynir Kristinsson stjórnarformaður Kolviðar og Jón Þór Gunnarsson forstjóri Arctic Adventures. Mynd: Arctic Adventures

Ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækið Arctic Advent­ures hefur undir­ritað samning við kolefn­is­sjóðinn Kolvið um gróður­setn­ingu tíu þúsund trjáa í Kolvið­ar­skógum og mun þar með kolefnis­jafna um 46 prósent af útblæstri fyrir­tæk­isins miðað við kolefn­is­bók­hald ársins 2018. Er þetta liður í stærra verk­efni sem miðar að því að auka sjálf­bærni í ferða­þjón­ustu samkvæmt því sem segir í tilkynn­ingu.

Kolviður er samstarfs­verk­efni Skóg­rækt­ar­fé­lags Íslands og Land­verndar og er markmið Kolviðar að auka bind­ingu kolefnis í skóg­ar­vist­kerfum í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs í andrúms­lofti, að binda jarðveg og draga úr jarð­vegseyð­ingu.

„Það er okkur mikil ánægja að Arctic Advent­ures ætlar nú að kolefnis­jafna hluta af starf­semi sinni en forverar Arctic Advent­ures voru með þeim fyrstu til að kolefnis­jafna eldsneyt­is­notkun bíla sinna. Samfé­lagsleg ábyrgð og gott samstarf við Kolvið hefur því fylgt starf­sem­inni lengi,“ segir Reynir Krist­insson, stjórn­ar­formaður Kolviðar, í tilkynn­ingu.

Þar kemur einnig fram að Arctic Advent­ures hafi fjár­fest í aukinni rafvæð­ingu bíla­flota félagsins og býði tæki­færis til að fjölga rafbílum fyrir­tæk­isins enn frekar. „Önnur umhverf­is­verk­efni sem Arctic Advent­ures stendur fyrir ásamt starfs­mönnum sínum eru strand­hreinsun, minnkun úrgangs, aukin endur­vinnsla og fræðsla til ferða­manna um mikil­vægi umhverf­is­verndar, bæði fyrir komuna til landsins og í ferðum með Arctic Advent­ures,” að því segir í tilkynn­ingu.