Kolefnisjafna nærri helming útblásturs

Arctic Adventures hefur skuldbundið sig til að gróðursetja tíu þúsund tré.

Reynir Kristinsson stjórnarformaður Kolviðar og Jón Þór Gunnarsson forstjóri Arctic Adventures. Mynd: Arctic Adventures

Ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Adventures hefur undirritað samning við kolefnissjóðinn Kolvið um gróðursetningu tíu þúsund trjáa í Kolviðarskógum og mun þar með kolefnisjafna um 46 prósent af útblæstri fyrirtækisins miðað við kolefnisbókhald ársins 2018. Er þetta liður í stærra verkefni sem miðar að því að auka sjálfbærni í ferðaþjónustu samkvæmt því sem segir í tilkynningu.

Kolviður er samstarfsverkefni Skógræktarfélags Íslands og Landverndar og er markmið Kolviðar að auka bindingu kolefnis í skógarvistkerfum í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs í andrúmslofti, að binda jarðveg og draga úr jarðvegseyðingu.

„Það er okkur mikil ánægja að Arctic Adventures ætlar nú að kolefnisjafna hluta af starfsemi sinni en forverar Arctic Adventures voru með þeim fyrstu til að kolefnisjafna eldsneytisnotkun bíla sinna. Samfélagsleg ábyrgð og gott samstarf við Kolvið hefur því fylgt starfseminni lengi,“ segir Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar, í tilkynningu.

Þar kemur einnig fram að Arctic Adventures hafi fjárfest í aukinni rafvæðingu bílaflota félagsins og býði tækifæris til að fjölga rafbílum fyrirtækisins enn frekar. „Önnur umhverfisverkefni sem Arctic Adventures stendur fyrir ásamt starfsmönnum sínum eru strandhreinsun, minnkun úrgangs, aukin endurvinnsla og fræðsla til ferðamanna um mikilvægi umhverfisverndar, bæði fyrir komuna til landsins og í ferðum með Arctic Adventures,“ að því segir í tilkynningu.