Losun frá flugi ætti að dragast verulega saman

Með brotthvarfi WOW air má gera ráð fyrir að heildarlosun íslenskra flugrekenda verði töluvert minni í ár.

Flugfélög verða að standa skil á losun gróðurhúsalofttegunda vegna flugferða innan Evrópu. Mynd: Aman Bhargava / Unsplash

Í takt við aukin umsvif Icelandair og WOW air þá hefur mengun vegna starfsemi íslenskra flugrekenda aukist síðustu ár. Í fyrra nam viðbótin nærri einum af hundraði og var raunlosun af flugi íslensku flugfélaganna um 820 þúsund tonn. Til samanburðar var hún rétt um 500 þúsund tonn á árunum 2014 og 2015. Þessar tölur ná aðeins losunar innan EES svæðisins og mengun vegna Ameríkuflugs Icelandair og WOW air er því ekki meðtalin líkt og fram kemur í frétt á vef Umhverfisstofnunnar. Ástæðan er sú að flugfélögin þurfa aðeins að standa skil á mengun innan álfunnar í takt við viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Í fyrra stóð WOW air undir um þriðjungi af heildarlosun íslenskra flugrekenda og með brotthvarfi félagsins má gera ráð fyrir að heildarlosun íslenskra flugrekenda dragist umtalsvert saman í ár. Samdrátturinn verður þó væntanlega eitthvað undir þriðjungi af losuninni í fyrra því starfsemi WOW air stöðvaðist ekki fyrr en undir lok fyrsta ársfjórðungs. Flugferðum WOW hafði þó fækkað umtalsvert frá sama tíma í fyrra. Hvert kolefnisspor Icelandair verður í ár ræðst að þónokkru leyti af því hvenær félagið getur á ný notað Boeing MAX þotur í áætlunarflug sitt. Þær eru nefnilega mun sparneyttari en aðrar flugvélar í flota félagsins sem eru nær allar framleiddar í kringum síðustu aldamót og þurfa meira eldsneyti en nýrri þotur.

Árlega fá evrópskir flugrekendur úthlutaðan ákveðin kvóta sem dugar fyrir hluta af þeirri mengun sem starfsemi þeirra veldur. Það sem uppá vantar þurfa flugfélögin að kaupa sérstaklega og verðið á þessum viðbótarheimildum ræðst á markaði. Hjá Icelandair eru losunareiningarnar keyptar með jöfnu millibili og kostuðu þær félagið rétt um milljarð króna fyrir síðasta ár. Stjórnendur WOW air seldu hins vegar losunarkvóta félagsins á sínum tíma til að ráða bót á fjárhagsstöðu félagsins. Þar með gerði WOW air ekki upp losun vegna starfsemi sinnar í fyrra en gera má ráð fyrir að það hefði kostað félagið á bilinu 350 til 450 milljónir króna.