Meðalfargjaldið lækkaði um 9 prósent

Þrátt fyrir fleiri farþega og aðeins betri sætanýtingu þá jókst tapið af rekstri Icelandair umtalsvert á fyrsta fjórðungi ársins.

Tapið af rekstri Icelandair fyrstu þrjá mánuðina var jafn mikið og allt árið í fyrra. Fyrsti og síðasti fjórðungur ársins eru þó vanalega í mínus. Mynd: Icelandair

Rekstur Icelandair Group skilaði 6,7 milljarða króna tapi fyrstu þrjá mánuði ársins sem er álíka tap og allt árið í fyrra. Í tilkynningu frá félaginu er haft eftir Boga Nils Bogasyn, forstjóra, að rekstur félagsins hafi verið krefjandi eins og búist hefði verið við og rekstrarniðurstaðan í takt við áætlanir.

Farþegum flugfélaganna samsteypunnar, Icelandair og Air Iceland Connect, fjölgaði samtals um 4,5 prósent þó samdrátturinn hjá því síðarnefnda hafi numið 14 prósentum. Viðbótina hjá Icelandair má rekja til fleiri farþega á leið til Íslands og eins fjölgaði þeim sem flugu með félaginu frá Íslandi um tíund. Þessa viðbót má líklega rekja til mjög veikrar stöðu helsta keppinautarins, WOW air, allt þetta ár. Hins vegar fækkaði tengifarþegum, fjölmennasta hópunum um borð í vélum Icelandair, um tvö prósent.

Þegar rýnt er upplýsingar um tekjur Icelandair á fyrsta ársfjórðungi í ár sést að meðalfargjaldið lækkaði um 8,8 prósent á tímabilinu í bandarískum dollurum talið en Icelandair gerir upp í þeirri mynt. Á móti kemur að svokallaðar hliðartekjur hækkuðu um 3,8 prósent. Megin skýringin á því kann að vera sú að haustið 2017 hóf Icelandair að rukka farþega með ódýrustu miðana fyrir innritaðan farangur og hluti þeirra sem flaug með félaginu fyrstu mánuðina í fyrra hefur verið búinn að kaupa farmiða áður en töskugjaldið var kynnt til sögunnar. Núna hefur hlutfall farþega, sem greiddi sérstaklega fyrir farangur, hækkað en ein taska til viðbótar við ódýrasta farmiðann hjá Icelandair kostar 5.280 kr. ef flogið er til Evrópu. Og tekjur Icelandair af sölu á þjónustu, sem áður var innifalin í fargjöldunum, mun líklega áfram hækka áfram því síðastliðið vor hóf félagið að rukka farþega aukalega fyrir sætin við neyðarútganga þar sem fótarýmið er meira.

Þó meðal farþegatekjur Icelandair hafi lækkað í dollurum talið þá hækkaði það í krónum þar sem hún hefur veikst umtalsvert gagnvart dollara síðastliðið ár. Meðaltekjur Icelandair á hvern farþega hækkuðu því um rúmar 2 þúsund krónur og voru 24 þúsund krónur á hvern farþega á fyrsta fjórðungi ársins.

Í tilkynningu Icelandair segir Bogi Nils, forstjóri Icelandair, að lækkandi farmiðaverð skýrist meðal annars af mikilli samkeppni við flugrekendur sem boðið hafa upp á ósjálfbær fargjöld. Þar er forstjórinn væntanlega að vísa til WOW air og jafnvel Norwegian en það fyrrnefnda fór á hausinn í lok mars og rekstur Norwegian hefur lengi verið þungur. Aftur á móti viðurkenndi Bogi, á ferðaþjónustufundi Íslandsbanka í vikunni, að Icelandair geti ekki boðið sambærileg fargjöld og lággjaldaflugfélög eins og Wizz air sem gerir út frá Austur-Evrópu þar sem laun eru almennt mun lægri en hér á landi. Við brotthvarf WOW air varð Wizz Air næst umsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli.