Miklu færri nýta Leifstöð sem skiptistöð

Brotthvarf WOW og breyttar áherslur hjá Icelandair hafa mikil áhrif á samsetningu farþega á Keflavíkurflugvelli.

Ríflega helmingi færri farþegar millilentu á Keflavíkurflugvelli á leið milli Ameríku og Evrópu í apríl. Mynd: Gerrie Van Der Walt / Unsplash

Vægi þeirra farþega sem aðeins nýta Keflavíkurflugvöll til að millilenda, á ferð sinni milli Evrópu og Norður-Ameríku, fór upp í 39 prósent í fyrra. Hlutfallið hafði þá aukist ár frá ári allt frá því að Ameríkuflug WOW air hófst sumarið 2015. Á sama tíma hefur Isavia séð tækifæri í þessari þróun og þarsíðasta vetur voru kynntar niðurstöður rannsóknar, sem fyrirtækið lét gera, sem sýndu fram á verðmæti þessa farþegahóps. Þar var því var jafnframt spáð að fjölgun tengifarþega yrði áfram mikil og það gekk eftir í fyrra þegar fjöldinn jókst um 27 prósent.

Samdrátturinn það sem af er ári nemur hins vegar 29 prósentum og í nýliðnum apríl nam hann 53 prósentum. Þá voru tengifarþegarnir nærri 120 þúsund en höfðu verið 254 þúsund í apríl í fyrra. Gjaldþrot WOW air í lok mars skýrir þessa miklu niðursveiflu að mestu leyti en því til viðbótar þá er það yfirlýst markmið stjórnenda Icelandair í ár að fjölga ferðamönnum á leið til Íslands um borð á kostnað tengifarþeganna.

Slagurinn um þá sem eru á leið milli Evrópu og N-Ameríku er líka það harður að fargjöldin standa vart undir rekstrinum eins og sjá má í gjaldþroti WOW air og Primera air og veikri stöðu Norwegian. Taprekstur Icelandair hefur líka aukist verulega síðastliðið ár og á síðasta ársfjórðungi tapaði félagið að jafnaði um 74 milljónum króna á degi hverjum.