Miklu færri nýta Leif­stöð sem skipti­stöð

Brotthvarf WOW og breyttar áherslur hjá Icelandair hafa mikil áhrif á samsetningu farþega á Keflavíkurflugvelli.

Ríflega helmingi færri farþegar millilentu á Keflavíkurflugvelli á leið milli Ameríku og Evrópu í apríl. Mynd: Gerrie Van Der Walt / Unsplash

Vægi þeirra farþega sem aðeins nýta Kefla­vík­ur­flug­völl til að milli­lenda, á ferð sinni milli Evrópu og Norður-Ameríku, fór upp í 39 prósent í fyrra. Hlut­fallið hafði þá aukist ár frá ári allt frá því að Amer­íkuflug WOW air hófst sumarið 2015. Á sama tíma hefur Isavia séð tæki­færi í þessari þróun og þarsíð­asta vetur voru kynntar niður­stöður rann­sóknar, sem fyrir­tækið lét gera, sem sýndu fram á verð­mæti þessa farþega­hóps. Þar var því var jafn­framt spáð að fjölgun tengifar­þega yrði áfram mikil og það gekk eftir í fyrra þegar fjöldinn jókst um 27 prósent.

Samdrátt­urinn það sem af er ári nemur hins vegar 29 prósentum og í nýliðnum apríl nam hann 53 prósentum. Þá voru tengifar­þeg­arnir nærri 120 þúsund en höfðu verið 254 þúsund í apríl í fyrra. Gjald­þrot WOW air í lok mars skýrir þessa miklu niður­sveiflu að mestu leyti en því til viðbótar þá er það yfir­lýst markmið stjórn­enda Icelandair í ár að fjölga ferða­mönnum á leið til Íslands um borð á kostnað tengifar­þeg­anna.

Slag­urinn um þá sem eru á leið milli Evrópu og N‑Ameríku er líka það harður að fargjöldin standa vart undir rekstr­inum eins og sjá má í gjald­þroti WOW air og Primera air og veikri stöðu Norwegian. Taprekstur Icelandair hefur líka aukist veru­lega síðast­liðið ár og á síðasta ársfjórð­ungi tapaði félagið að jafnaði um 74 millj­ónum króna á degi hverjum.