Miklu fleiri farþegar og betri nýting eftir fall WOW

Nærri fimmtungi fleiri farþegar nýttu sér ferðir Icelandair í apríl.

Mynd: Isavia

Í síðasta mánuði stóð Icelandair undir nærri sjö af hverjum tíu áætlunarferðum frá Keflavíkurflugvelli en hlutfallið var 43 prósent í apríl í fyrra samkvæmt talningum Túrista. Meginskýringin á þessari miklu breytingu er sú að WOW air, helsti keppinauturinn á íslenska markaðnum, fór í þrot í lok mars. Icelandair tók við fjölda farþega sem áttu bókað far með WOW air og situr nú eitt að mun fleiri flugleiðum en áður. Og þessar miklu breytingar á markaðnun koma fram í nýbirtum farþegatölum Icelandair fyrir apríl því þar segir að nítján prósent fleiri farþega hafi flogið með félaginu í síðasta mánuði. Sætanýtingin hækkaði sömuleiðis upp í  83,7 prósent samanborið við 77,2 prósent í fyrra.

Flestir farþega Icelandair í apríl voru ferðamenn á leið til Íslands og fylltu þeir um fjögur af hverjum tíu sætum um borð. Það er mikil viðbót frá því í fyrra og eins fjölgaði farþegum frá Íslandi um 24 þúsund sem samsvarar ríflega helmings aukningu frá sama tíma á síðasta ári. Hins vegar fækkaði tengifarþegum Icelandair um nærri tíund.

Þotur Icelandair skiluðu sér á áfangastað á réttum tíma í 67 prósent tilvika samanborið við 76 prósent í apríl á síðasta ári. Skýrist það af mikilli röskun sem varð á flugi vegna slæms veðurs á Íslandi í tvo daga.