Mögulega nýtt tilboð í Norwegian

Hlutabréf í Norwegian hækkuðu töluvert í dag eftir að spænskt dagblað greindi frá áhuga á yfirtöku á norska lággjaldaflugfélaginu.

Mynd: Norwegian

Í ársbyrjun lýstu stjórnendur IAG, móðurfélags British Airways og fleiri flugfélaga, því yfir að þeir myndu ekki gera fleiri tilraunir til að taka yfir Norwegian. Í kjölfarið féll gengi hlutabréfa í þessu þriðja umsvifamesta lággjaldaflugfélagi Evrópu og stuttu síðar lögðu sterkefnaðir Norðmenn félaginu til aukið hlutafé enda hefur reksturinn verið þungur um langt skeið. Kyrrsetning á Boeing MAX þotum félagsins hefur aukið enn á vandann.

Verðmiðinn á Norwegian í dag er því nokkru lægri en hann var þegar IAG lagði sín tilboð á borðið í fyrra og nú herma heimildir spænska dagblaðsins Expansion að forsvarsmenn flugvélasamteypunnar séu að undirbúa nýtt tilboð. Spænsku flugfélögin Vueling og Iberia eru hluti af IAG og spænska pressan fylgist því vel með gangi mála hjá fyrirtækinu. Eftir að frétt Expansion spurðist út í dag þá hækkaði verð hlutabréfa í Norwegian um sextán prósent.

Það gæti þó orðið nokkur bið eftir nýju tilboði frá IAG því félagið má í fyrsta lagi hefja viðræður á ný við Norwegian í lok næsta mánaðar samkvæmt reglum bresku og spænsku kauphallanna þar sem bréf IAG eru skráð. Ef í millitíðinni annað fyrirtæki gerir tilraun til að kaupa Norwegian þá má IAG hins vegar blanda sér í slaginn. Og sá keppinautur gæti leynst í Þýskalandi enda hefur forstjóri Lufthansa Group lýst því yfir að hann sjái tækifæri í því að bæta Norwegian við sístækkandi hóp flugfélag innan þýsku samsteypunnar.