Ná auka­lega um helm­ingi af þeim fjölda sem flaug með WOW

Stjórnendur Icelandair hafa sett í forgang að selja fólki flug til og frá Íslandi í stað þess að gera aðallega út á tengifarþega. Það hefur skilað sér í fleiri bókunum ferðamanna á leið til Íslands.

Tengifarþegar sátu að jafnaði í rúmlega öðru hverju sæti í þotum Icelandair og WOW sl. sumar. Nú fer hlutfall þessa farþegahóps lækkandi hjá Icelandair. Myndir: Icelandair og WOW air

Undan­farin ár hefur megin­áherslan hjá Icelandair verið á farþega á leið milli Evrópu og Norður-Ameríku og þar var líka fókusinn hjá WOW air. Þetta varð til þess að tengifar­þegar skipuðu meira en helming sætanna í þotum félag­anna tveggja. Eftir gjald­þrot helsta keppi­naut­arins hafa stjórn­endur Icelandair sett farþega á leið til og frá Íslandi í forgang. Þetta hafa þeir meðal annars gert með fjölgun brott­far­ar­tíma og verð­lagn­ingu, t.d. með því að taka ekki eins virkan þátt í verð­stríðinu í flugi yfir Atlants­hafið.

Þessi stefnu­breyting, ásamt falli WOW air auðvitað, hefur orðið til þess að í dag eiga þrjátíu prósent fleiri bókað far með félaginu til Íslands í sumar en á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynn­ingu frá sem félagið sendi frá sér í gær.

Þar kemur ekki fram hversu mörg sæti þetta eru en miðað við farþega­tölur Icelandair og WOW air síðast­liðið sumar þá má gera ráð fyrir að Icelandair hafi flutt á bilinu 270 til 290 þúsund ferða­menn til landsins í júní, júlí og ágúst í fyrra. Á því tíma­bili hafa komið hingað 180 til 200 þúsund ferða­menn með WOW air en alls fóru 804 þúsund erlendir ferða­menn um Kefla­vík­ur­flug­völl yfir sumarið. Hlut­deild íslensku flug­fé­lag­anna hefur þá verið saman­lögð rétt um sextíu prósent.

Að því gefnu að nú þegar hafi bókað far rúmur helm­ingur þeirra erlendu ferða­manna sem fljúga munu með Icelandair í sumar þá þýðir það viðbótar sölu upp á 45 til 55 þúsund sæti. Það er um fjórð­ungur af fjöld­anum sem WOW air flutti hingað sl. sumar. Miðað við sama takt í bókunum á flugi til Íslands, á kostnað tengifar­þega, þá gæti Icelandair brúað allt að helming að því skarði sem WOW skildi eftir sig í sumar þegar horft er til erlendra ferða­manna.

Eins ber að hafa í huga að þó taldir hafi verið 804 þúsund erlendir ferða­menn á Kefla­vík­ur­flug­velli í sumar þá voru þeir nokkru færri. Lætur nærri að einn af hverjum sjö hafi verið rang­lega meðtalinn því þetta voru annað hvort útlend­ingar búsettir á Íslandi eða svokall­aðir sjálf­tengifar­þegar.  Þessi skekkja mun vænt­an­lega dragast saman í sumar og ferða­manna­taln­ingin á Kefla­vík­ur­flug­velli því verða nær raun­veru­legu tölunni en hún hefur verið síðustu ár.

Þessu til viðbótar má nefna að hlut­fall ferða­manna í þotum Icelandair er í raun hærra en félagið hefur gefið upp í gegnum tíðina. Það var nefni­lega í fyrsta sinn nú í ársbyrjun sem það kom fram í uppgjöri félagsins að fjórði hver tengifar­þega félagsins ferð­aðist á svokölluðu „stop-over” fargjaldi. Þeir sem það gera dvelja á landinu á milli flug­ferða og eru því ekki hefð­bundnir tengifar­þegar. Ef hlut­fallið hefur verið þetta hátt sl. sumar þá hefur Icelandair í raun vantalið erlendu ferða­mennina um borð í vélum félagsins um 40 til 50 þúsund á því tíma­bili. Þessi hópur dregst vænt­an­lega saman í sumar í ljósi fyrr­nefndra áherslu­breyt­inga en vanmatið er þó áfram umtals­vert.