Tvöfalt fleiri ferðamenn miðað við ársbyrjun 2015

Þó færri útlendingar hafi lagt leið sína hingað í ár í samanburði við síðustu tvö ár þá er aukningin hins vegar mikil þegar horft er lengra aftur í tímann. Gera má ráð fyrir að í mesta lagi sjöundi hver ferðamaður í ár hafi komið hingað með WOW.

Mynd: Isavia

Það sem af er ári hafa 588 þúsund erlendir farþegar flogið frá Keflavíkurflugvelli og nemur samdrátturinn um átta af hundraði miðað við fyrstu fjóra mánuðina í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Í samanburði fyrsta þriðjung ársins 2017 þá er samdrátturinn líka þónokkur en ef litið er lengra aftur í tímann er þróunin önnur. Ferðamannahópurinn hefur til að mynda stækkað um helming frá árinu 2016 og tvöfaldast í samanburði við fyrstu fjóra mánuðina 2015. Munurinn er margfaldur þegar litið er til áranna þar á undan eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan.

Þar sést líka hversu stór stökkin hafa verið síðustu ár og sérstaklega árið 2017 þegar ferðamannafjöldinn, fyrstu fjóra mánuðina, fór upp um nærri sextíu af hundraði. Þá var WOW air á miklu flugi og hafði rekstur þess skilað hagnaði árið á undan. Nú liggur það hins vegar fyrir að vanskil WOW air á Keflavíkurflugvelli hófust í seinni hluta árs 2017 og þá var félagið var rekið með töluverðu tapi. Á sama hátt og rekja má aukninguna á þessum árum að miklu leyti til WOW þá skrifast niðursveiflan í ár á fall félagsins en rekstur þess stöðvaðist í lok mars. Fyrirtækið hafði þó skorið verulega niður flugáætlun sína í ár og þróunin var því fyrirséð að nokkru leyti.

Farþegatölur WOW fyrir mars mánuð voru aldrei birtar en miðað við fjölda flugferða í þeim mánuði og fjölda farþega í janúar og febrúar þá má gera ráð fyrir að á bilinu 70 til 90 þúsund erlendir ferðamenn hafi flogið hingað með WOW í ár ef gert er ráð fyrir að vægi erlendra ferðamanna í farþegahópnum hafi verið álíka og það var í fyrra. Til að brúa það bil, fyrstu fjóra mánuðina á næsta ári, þá þarf að bæta að minnsta kosti 5 til 7 farþegaflugum á dag við áætlun Keflavíkurflugvallar ef allt annað helst óbreytt.