Næstum allir á leið í frí til Íslands

Það eiga fáir útlendingar erindi hingað til lands vegna vinnu því langflestir nýta frítíma sinn í að heimsækja landið.

Island seljalandsfoss taylor leopold
Mynd: Taylor Leopold / Unsplash

Megintilgangurinn með ferðalagi til Íslands er langoftast sá vera hér í fríi. Þetta sýna niðurstöður landamærakannana Ferðamálastofu því síðustu 12 mánuði hafa 87 prósent erlendra ferðamanna á Keflavíkurflugvelli sagt að þeir væru hér fyrst og fremst sem hefðbundnir ferðamenn.

Fimm af hverjum hundrað útlendingum voru hingað komnir vegna náms eða heilsutengdra þátta og þrjú prósent ferðafólksins sagðist hafa verið í heimsókn hjá vinum eða ættingjum. Hlutfall þeirra sem sögðu ferðalagið til Íslands skrifast á vinnuferð var 2,8 prósent sem er nokkru lægra en þekkist í löndunum í kringum okkur. Tölur ferðamálaráðs Finnlands sýna til að mynda að útlendingar í vinnuferðum stóðu undir einni af hverjum þremur hótelnóttum sem erlendir ferðamenn bókuðu þar í landi í hittifyrra. Hlutfallið í Danmörku er um tíu prósent en niðurstöður könnunar á vegum þarlendra ferðamálayfirvalda sýnir að útlendingar í vinnuferðum eyða að jafnaði fimmtungi meiru en aðrir erlendir ferðamenn á danskri grundu.

Hið lága hlutfall viðskiptaferðalanga hér á landi er vafalítið ein ástæða þess að Ísland hefur ekki komist á kortið hjá stórum evrópskum flugfélög eins og KLM, Air France, Swiss, Aer Lingus og Brussels Airlines. Á sama hátt gæti það skýrt af hverju flugfélag eins og Lufthansa lætur nægja að fljúga hingað þrjár ferðir í viku yfir vetrarmánuðina. Stjórnendur British Airways hafa sömuleiðis gefið út að þeir líti fyrst og fremst á Ísland sem markað fyrir almenna ferðamenn.