Næstum allir á leið í frí til Íslands

Island seljalandsfoss taylor leopold
Mynd: Taylor Leopold / Unsplash

Nærri níu af hverjum tíu erlendum ferðamönnum hér á landi segist hingað komin til að fara í frí. Um fimm prósent kemur vegna náms eða heilsutengdra þátta og þrír af hverjum hundrað útlendingum eru í heimsókn hjá vinum eða ættingjum.

Hlutfall þeirra sem sögðu ferðalagið til Íslands skrifast á vinnuferð var 2,8 prósent. Það er nokkru lægra en þekkist í löndunum í kringum okkur. Þannig sýna tölur ferðamálaráðs Finnlands að útlendingar í vinnuferðum stóðu undir einni af hverjum þremur hótelnóttum sem erlendir ferðamenn bókuðu þar í landi í hittifyrra.

Hlutfallið í Danmörku er um tíu prósent en niðurstöður könnunar á vegum þarlendra ferðamálayfirvalda sýnir að útlendingar í vinnuferðum eyða að jafnaði fimmtungi meiru en aðrir erlendir ferðamenn á danskri grundu.

Hið lága hlutfall viðskiptaferðalanga hér á landi er vafalítið ein ástæða þess að Ísland hefur ekki komist á kortið hjá stórum evrópskum flugfélög eins og KLM, Air France, Swiss, Aer Lingus og Brussels Airlines.

Á sama hátt gæti það skýrt af hverju flugfélag eins og Lufthansa lætur nægja að fljúga hingað þrjár ferðir í viku yfir vetrarmánuðina. Stjórnendur British Airways hafa sömuleiðis gefið út að þeir líti fyrst og fremst á Ísland sem markað fyrir almenna ferðamenn.