Nauthólsvík á topplista Lonely Planet

Ferðaritið fræga mælir með sjóbaði í Reykjavík.

Mynd: Iceland.is

Það eru fáar ef nokkrar borgir sem státa af eins góðum sundlaugum og Reykjavík gerir og nú bætist við að Nauthólsvík er einn besti baðstaður sem finna má innan borgarmarka að mati álitsgjafa ferðaritsins Lonely Planet. Í umsögn segir að ætla mætti að það væri bara fyrir harðjaxla að hoppa út í íslenskan sjó en upphitaða vatnið, heitu pottarnir og fegurð svæðisins væru nægjanleg ástæða til að láta vaða.

Á lista Lonely Planet yfir bestu borgarböðin er líka að finna hafnarbaðið við Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn, Kitsilano saltvatnssundlaugina í Vancouver, Bains de Paquis í hjarta Genfar, Serpentine Lido í Hyde Park í London, Bronx Floating Pool í New York borg og Piscine Josephine Baker við bakka Signu í París.

Allt eru þetta rómaðir sundstaðir sem laða ekki bara til sín heimamenn heldur líka þá túrista sem pakkað hafa sundfötum jafnvel þó þeir væru aðeins að fara í borgarferð. Og það ættu þeir lesendur að hafa í huga sem ætla til Köben, Parísar, London, Vancouver eða New York því til allra þessara borga er flogið beint frá Keflavíkurflugvelli allt árið um kring.