Nýta þoturnar betur

Fyrrasumar hafði Icelandair 33 þotur og sætaframboð félagsins var þá um tíu prósent minna en núverandi sumaráætlun gerir ráð fyrir.

Nú í maí bætast nýir flugtímar við áætlun Icelandair. Auk hefðbundinna brottfara, í morgunsárið og seinnipartinn, munu þotur félagsins einnig fljúga til Evrópu um miðjan morgun og til Norður-Ameríku á kvöldin. Þessi breyt­ing­ var meðal annars gerð í tengslum við komu nýrra Boeing MAX þota og gerði upphafleg sumaráætlun ráð fyrir að níu af þrjátíu og sex flugvélum félagsins yrðu af þeirri gerð. MAX þoturnar voru hins vegar kyrrsettar í mars og nú gera stjórnendur Icelandair ekki ráð fyrir að þær fari í loftið fyrr en í fyrsta lagi um miðjan júlí.

Til að fylla skarðið í flugflotanum hefur félagið leigt þrjár þotur en sætin í þeim eru um helmingi færri en í MAX þotunum níu. Þrátt fyrir þann mikla mun þá dregst sætaframboð á vegum Icelandair, fyrripart sumars, aðeins saman um tvo af hundraði samkvæmt tilkynningu. Aðspurð um hvort nýja flugáætlunin bæti nýtingu flugvélanna það mikið að samdrátturinn verði ekki meiri þá segir Ásdís Pétursdóttir, blaðafulltrúi Icelandair, að svo sé. Hún bendir jafnframt á að sætafjöldinni í leiguvélunum þremur jafnist á við fjórar og hálf MAX 8 flugvélar en sem fyrr segir gerði upphafleg áætlun Icelandair ráð fyrir níu slíkum í sumar. Dæmi um betri nýtingu á flugvélunum er sá að í stað þess að láta þotur standa í tæpan sólarhring á flugvöllunum í Seattle, Denver, Vancouver, Portland og víðar þá er þeim flogið beint heim þar sem úti bíða áhafnir sem fengið hafa sín hvíld.

Ennþá liggur ekki fyrir hvenær MAX þoturnar fara í loftið á ný og í nýrri tilkynningu frá Boeing segir að innanhús hafi verið vitað af galla í vél­un­um stuttu eftir að þær fyrstu voru afhendar til við­skipta­vina. Í vetur hafa tvær MAX þotur hrapað og samtals létu lífið 346 manns. Icelandair hefur aðeins tryggt sér leiguflugvélar fram í september en hvort félagið verði þá farið að fljúga MAX þotum á ný á eftir að koma í ljós og einnig hver viðbrögð farþega verða við vélunum.