Nýta þoturnar betur

Fyrrasumar hafði Icelandair 33 þotur og sætaframboð félagsins var þá um tíu prósent minna en núverandi sumaráætlun gerir ráð fyrir.

Nú í maí bætast nýir flug­tímar við áætlun Icelandair. Auk hefð­bund­inna brott­fara, í morg­uns­árið og seinnipartinn, munu þotur félagsins einnig fljúga til Evrópu um miðjan morgun og til Norður-Ameríku á kvöldin. Þessi breyt­ing­ var meðal annars gerð í tengslum við komu nýrra Boeing MAX þota og gerði upphafleg sumaráætlun ráð fyrir að níu af þrjátíu og sex flug­vélum félagsins yrðu af þeirri gerð. MAX þoturnar voru hins vegar kyrr­settar í mars og nú gera stjórn­endur Icelandair ekki ráð fyrir að þær fari í loftið fyrr en í fyrsta lagi um miðjan júlí.

Til að fylla skarðið í flug­flot­anum hefur félagið leigt þrjár þotur en sætin í þeim eru um helm­ingi færri en í MAX þotunum níu. Þrátt fyrir þann mikla mun þá dregst sætaframboð á vegum Icelandair, fyrripart sumars, aðeins saman um tvo af hundraði samkvæmt tilkynn­ingu. Aðspurð um hvort nýja flugáætl­unin bæti nýtingu flug­vél­anna það mikið að samdrátt­urinn verði ekki meiri þá segir Ásdís Péturs­dóttir, blaða­full­trúi Icelandair, að svo sé. Hún bendir jafn­framt á að sæta­fjöld­inni í leigu­vél­unum þremur jafnist á við fjórar og hálf MAX 8 flug­vélar en sem fyrr segir gerði upphafleg áætlun Icelandair ráð fyrir níu slíkum í sumar. Dæmi um betri nýtingu á flug­vél­unum er sá að í stað þess að láta þotur standa í tæpan sólar­hring á flug­völl­unum í Seattle, Denver, Vancouver, Port­land og víðar þá er þeim flogið beint heim þar sem úti bíða áhafnir sem fengið hafa sín hvíld.

Ennþá liggur ekki fyrir hvenær MAX þoturnar fara í loftið á ný og í nýrri tilkynn­ingu frá Boeing segir að innanhús hafi verið vitað af galla í vél­un­um stuttu eftir að þær fyrstu voru afhendar til við­skipta­vina. Í vetur hafa tvær MAX þotur hrapað og samtals létu lífið 346 manns. Icelandair hefur aðeins tryggt sér leiguflug­vélar fram í sept­ember en hvort félagið verði þá farið að fljúga MAX þotum á ný á eftir að koma í ljós og einnig hver viðbrögð farþega verða við vélunum.