Ódýrasta Evrópuflugið er oftast til Íslands

Bandaríkjamenn sem búsettir eru í Alabama, Maine eða jafnvel Havaí borga minnst fyrir Íslandsflug setji þeir stefnuna á Evrópu í sumar. Skiptir þá engu að frá þessum þremur fylkjum er ekki flogið beint til Íslands.

bandarikin fani thomas kelley
Mynd: Thomas Kelley / Unsplash

Hin lágu fargjöld WOW air þóttu ósjaldan fréttnæm vestanhafs enda voru íbúar í Los Angeles, St. Louis og Cincinnati ekki vanir að borga rétt um hundrað dollara fyrir flug til Evrópu og reyndar var WOW eina flugfélagið sem flaug út í heim frá þeim tveimur síðarnefndu. Nú er WOW hins vegar hætt og ekkert annað flugfélag sem býður upp á álíka tilboð og íslenska lággjaldaflugfélagið gerði. Engu að síður þá borga Bandaríkjamenn að jafnaði minna fyrir flug hingað til lands en til flestra annarra Evrópulanda. Þetta sýna niðurstöðunar könnunar sem flugleitarvélin Kayak gerði fyrir vefsíðuna Thrillist þar sem leitað var eftir ódýrustu meðalfargjöldunum til Evrópu frá 64 bandarískum flugvöllum.

Þetta er annað árið í röð sem könnunin er gerð og í fyrra þá voru flugmiðar til Reykjavíkur að jafnaði þeir ódýrustu fyrir íbúa í kringum 25 bandaríska flugvelli. Í ár er Reykjavík hins vegar ódýrasti kosturinn frá 36 flugvöllum. Það er hins vegar aðeins flogið beint til Íslands frá fimmtán flugvöllum í sumar og því er tengiflug hluti af farmiðaverðinu í flestum tilfellum.

Auk Icelandair þá bjóða þrjú stærstu flugfélög Bandaríkjanna upp á flug þaðan til Keflavíkurflugvallar í sumar og þar sem leiðakerfi þeirra ná út um öll Bandaríkin þá er einfalt fyrir marga íbúa landsins að komast til Íslands næstu mánuði. Skýringin á lágum fargjöldum skrifast þó ekki bara á aðgengið því það tekur líka skemmri tíma að fljúga hingað til lands frá Bandaríkjunum en yfir á meginland Evrópu.

Niðurstöður könnunar Thrillist gagnast vissulega líka þeim Íslendingum sem stefna á heimsókn til Bandaríkjanna í ár. Þannig ætti meðalfarið til Havaí í sumar að kosta rétt um 75 þúsund krónur í sumar og farmiði til Luois Armstrong flugvallar í New Orleans er álíka dýr.