Ódýrustu flugmiðarnir í lok mánaðar

Ef þú gætir hugsað þér að nýta fríið á uppstigningardag til að fljúga út í heim þá eru þetta ódýrustu flugmiðarnir sem í boði eru í dag.

London Piccadilly Julian LoveLondon and Partners
Frá Piccadilly Circus í London. Mynd: Julian Love / London and Partners

Uppstigningardagur er almennur frídagur og í ár er hann fimmtudaginn 30. maí næstkomandi. Og þeir sem geta hugsað sér að nýta þennan almenna frídag til ferðalaga út í heim hafa úr töluverðu að moða því dagskrá Keflavíkurflugvallar þennan síðasta fimmtudag mánaðarins gerir ráð fyrir brottförum til hátt í fjörutíu borga. Farmiðarnir kosta auðvita mis mikið og í mörgum tilfellum þá er mun ódýrara að fljúga heima á mánudeginum í stað sunnudagsins ef helgarferð er eini möguleikinn.

Samkvæmt athugun Túrista er ódýrasta helgarflugið í lok mánaðar á rétt um 18 þúsund krónur ef flogið er til London með Wizz air og heim með easyJet á sunnudagsmorgun. Næst ódýrustu farmiðarnir kosta nokkru meira því borga þarf um 30 þúsund kr. fyrir flug til Bergen og Stokkhólms með Icelandair og farið með easyJet til Edinborgar er á það sama. Fyrir um 40 þúsund kr. fást sæti í þotum Icelandair til Amsterdam og Parísar en Transavia býður þrjú þúsund króna lægri farmiða til frönsku höfuðborgarinnar.

Farmiðarnir til Bandaríkjanna og Kanada kosta í öllum tilvikum meira enda ferðalagið lengra en til Evrópu. Með Delta má fljúga til New York fyrir 60 þúsund kr. og fyrir sömu upphæð með Icelandair til Bostong og svo þarf að bæta 3 þúsund krónum við til að komast til Washington borgar.