Ríflega sex hundruð færri áætlunarflug í apríl

Að jafnaði fækkaði brottförunum frá Keflavíkurflugvelli um tuttugu og eina á degi hverjum í síðasta mánuði. Hlutdeild Icelandair nálgast það sem hún var á árunum fyrir vaxtaskeið WOW air.

Mynd: Isavia

Í apríl í fyrra flugu þotur WOW air 588 ferðir frá Íslandi til áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku. Félagið fór í þrot þann 28. mars og skildi eftir sig stórt skarð á Keflavíkurflugvelli. Ferðunum til og frá flugvellinum fækkaði þó aðeins meira en sem nam ferðafjölda WOW því mörgum brottförum var aflýst vegna veðurs dagana 12. og 13. apríl. Verkfall flugmanna SAS hafði líka áhrif því félagið felldi niður ellefu ferðir hingað til lands. Í heildina nam samdrátturinn í áætlunarflugi til og frá Keflavíkurflugvelli um 32 prósentum í apríl samkvæmt mánaðarlegum talningum Túrista. Flugferðir fyrir íslenskar og erlendar ferðaskrifstofur eru ekki taldar með.

Að jafnaði voru í boði 45 áætlunarferðir á degi hverjum í nýliðnum apríl sem er samdráttur um nærri 21 ferð á dag frá sama tíma í fyrra. Þá náðu páskar sig yfir mánaðarmótin mars-apríl en voru núna um miðjan síðasta mánuð. Páskarnir eru alla jafna annasamur tími í ferðaþjónustu og til að mynda er ásóknin í bílastæðin við Flugstöð Leifs Eiríkssonar aldrei meiri en þá. Farþegaspá Isavia sem birt var í byrjun árs, fyrir fall WOW, gerði ráð fyrir um 13 prósent færri erlendum ferðamönnum í apríl og skrifaðist aðallega á mikinn samdrátt hjá WOW air enda hafði félagið þá fækkað flugvélum í flota sínum um nærri helming. Þó áætlunarferðum hafi fækkað um rúm þrjátíu prósent í apríl þá er óhætt að fullyrða að samdrátturinn í komum erlendra ferðamanna verði minni því stór hluti af farþegum WOW voru tengifarþegar og auðvitað Íslendingar.

Áður en hinn mikli vöxtur WOW air hófst í kjölfar Ameríkuflugs félagsins þá stóð Icelandair alla jafna undir um sjö af hverjum tíu áætlunarferðum til og frá landinu. Vægi félagsins lækkaði hins vegar umtalsvert en við brotthvarf helsta keppinautarins hér á landi þá er hlutfallið á ný komið á fyrri stað eins og sjá má töflunni hér fyrir neðan.