Samkomulag Isavia og WOW ekki lagt fyrir ríkisstjórn en ráðherrar upplýstir

Í vikunni tekur Landsdómur fyrir deilu Isavia og flugvélaleigunnar ALC um ábyrgðina á ríflega tveggja milljarða króna skuld WOW air við Keflavíkurflugvöll.

Mynd: Isavia

„Forsætisráðherra var kunnugt um að Isavia taldi sig hafa ákveðnar tryggingar fyrir greiðslu notendagjalda á Keflavíkurflugvelli. Samkomulag Isavia og WOW air var ekki gert með vitneskju forsætisráðherra og var ekki lagt fyrir ríkisstjórn,“ segir í svari frá forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Túrista. Þar var spurt út í þá fullyrðingu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í viðtali við Rúv, þremur dögum fyrir gjaldþrot WOW air, að Isavia væri auðvitað með ákveðnar tryggingar fyrir skuldum WOW. 
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Isavia gæti ekki krafið eigenda kyrrsettrar þotu á Keflavíkurflugvelli um greiðslu rúmlega tveggja milljarða króna skuldar WOW air á Keflavíkurflugvelli. Landsdómur úrskurðar í málinu í lok vikunnar.

Isavia er opinbert hlutafélag og það er Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sem fer með hlut ríkisins í fyrirtækinu. Í svari frá ráðuneytinu segir að Isavia hafi upplýst fjármála- og efnahagsráðuneytið um vanskil WOW með almennum hætti. Því er bætt við að ráðuneytið hafi ekki afskipti af viðskiptalegum ákvörðunum félaga í þess eigu og hefur af þeim sökum ekki beint neinum tilmælum til stjórnar Isavia um framangreint málefni.

Í viðtali við Mbl.is í byrjun mánaðar sagði Bjarni að honum þætti stjórn Isa­via hafa fært ágæt­is­rök fyr­ir því hvernig hún hélt á mál­um er varða ógreidd lend­ing­ar­gjöld WOW air á Kefla­vík­ur­flug­velli og benti á að óbein­ar tekj­ur af rekstri WOW air frá því flug­fé­lagið lenti í van­skil­um við Isa­via hafi numið „gríðarlega háum fjár­hæðum“. Starfandi forstjóri Isavia hefur einnig notað þessi rök og í svari Isavia segir að þarna sé verið að vísa í allar óflugtengdar tekjur sem koma til vegna farþega, t.d, vegna verslunar,  veitingasölu, bílastæðagjalda og tekjum af rútuferðum og bílaleigubílum.

Það fást hins vegar engin svör frá fjármálaráðuneytinu né Isavia þegar beðið er um mat á upphæð þessara miklu tekna sem farþegar WOW skiluðu Isavia með óbeinum hætti. Í nýbirtum ársreikningi Isavia kemur hins vegar fram að hagnaður fyrirtækisins á síðasta ári nam tæpum 4,3 milljörðum króna. Þar með hefur hagnaður á hvern farþega numið rétt tæpum fimm hundruð krónum og ábati Isavia af farþegum WOW, allt árið í fyrra, var þá um 1,3 milljarður króna þegar búið að er taka tillit til tvítalningar tengifarþega.

Eins og gefur að skilja má gera alls kyns fyrirvara við útreikningana hér að ofan en réttlæting Isavia og fjármálaráðherra um miklar tekjur af farþegum WOW hefur líka verið gagnrýnd. Það gerði Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, til að mynda í grein á Vísi í síðustu viku. Þar velti Þórir því til dæmis upp hvort stjórnendur Isavia séu í raun að staðfesta að álögurnar á þjónustu og sölu til farþega á flugvellinum er það sem í raun skilar hagnaði á Keflavíkurflugvelli á meðan almenn flugvallarþjónustan sé rekin með miklu tapi.